Sandra Bradley, þýsk kraftlyftingakona, varð á dögunum fyrsta konan í heiminum til þess að lyfta Fullsterkum, 154 kílógramma steini á Snæfellsnesi.
„Ferlið við að finna út úr því hvernig eigi að lyfta stórum, undarlega í laginu, steinum er eitthvað sem ég kann vel við,“ skrifar Bradley á Instagram.
Hún var einnig fyrsta konan í heiminum til þess að lyfta Húsafellshellunni alræmdu.
View this post on InstagramA post shared by SUNNY 🇩🇪 | Strength Coach | Pro Strongwoman (@sandrabradley_)
Í Dritvík í Djúpalónssandi eru fjórir aflraunasteinar sem kraftlyftingarmenn hafa spreytt sig á í gegnum árin, þótt saga þeirra sé 400 ára gömul. Sjómenn þurftu áður fyrr að sanna styrk sinn með því að lyfta steinunum.
Hafþór Júlíus Björnsson lyfti einmitt þyngsta steininum árið 2022 og Morgunblaðið tók hann í viðtal í kjölfarið.
„Afi minn var með mér og leiðbeindi mér. Ég náði ekki taki á steininum í fyrstu tilraun heldur þurfti ég að reyna við hann nokkrum sinnum. Það var ekki fyrr en afi sagði við mig: „Hafþór, hafðu höndina aðeins lengra til hægri,“ af því að hann lak alltaf úr höndunum á mér þar sem hann leitaði til hliðar. Þannig að ég hlustaði auðvitað á hann, mann með margra ára reynslu, og næ honum loks upp,“ sagði Hafþór í samtali við Morgunblaðið.