Ekki margt sem fóðrar egóið

„Það hefur lengi verið á markmiðalistanum mínum að heimsækja Ísland,“ …
„Það hefur lengi verið á markmiðalistanum mínum að heimsækja Ísland,“ segir tónlistarmaðurinn. Ljósmynd/Mike Formanski

Tónlistarmaðurinn Richard Melville Hall, betur þekktur sem Moby, er bandarískur tónlistarmaður, lagahöfundur, söngvari, framleiðandi og dýraverndunarsinni. Blaðamanni bauðst einkaviðtal við Moby nú á dögunum þar sem hann var meðal annars spurður út í nýju plötuna, ferilinn og tónleikaferðalagið sem hefst í september.

„Þegar ég var 9 ára gamall byrjaði ég að spila á gítar en mig dauðlangaði að verða frábær söngvari. Mig langaði að vera Paul McCartney, mig langaði að vera David Bowie en svo fór ég að spila í hljómsveit og komst fljótt að því að ég er ekki góður söngvari. Ég er ekki slæmur söngvari en ég er enginn David Bowie,“ segir Moby spurður að því hvernig sú hugmynd hafi kviknað að búa til plötu í samstarfi við 13 aðra söngvara. Nýjasta plata hans, always centered at night, kom út í júní og á meðal þeirra sem fram koma á henni má nefna Lady Blackbird, Benjamin Zephaniah, Serpentwithfeet og Gaidaa.

Nýjasta plata Moby, Always Centered at Night, kom út í …
Nýjasta plata Moby, Always Centered at Night, kom út í sumar.

„Um leið og ég fór að gera mínar eigin plötur komst ég að því að til þess að vera með fallegar raddir á plötunni minni yrði ég að vinna með öðru fólki. Slík vinna hófst því snemma á tíunda áratugnum hjá mér, það er að fara út í heim og finna samstarfsaðila. Þetta hafa síðan í gegnum árin verið söngvarar allt frá Freddie Mercury og David Bowie til Kris Kristofferson en ég hef unnið með svo mörgum ólíkum söngvurum. Það sem mig langaði hins vegar að gera á þessari plötu var að vinna með söngvurum sem kannski flestir ættu ekki að kannast við. Mig langaði að finna nýjar raddir, raddir fólks sem væru einstakar, fallegar og kraftmiklar en einnig áhugaverðar og að mestum hluta óþekktar. Það var í rauninni hugmyndin að baki plötunni,“ útskýrir hann og segir að í framhaldinu hafi tekið við margra mánaða vinna.

„Ég sendi þeim síðan hljóðdæmi og beið spenntur eftir því að sjá hvað ég fengi til baka frá þeim. Það dásamlega við það var að í hvert einasta skipti sem söngvararnir sendu upptökur til baka þá voru þær svo miklu betri en ég hafði búist við. Þegar þú ert tónlistarmaður er það mjög spennandi þegar samstarfsaðili þinn er sá sem gerir lagið sérstakt.“

Bjóst aldrei við plötusamningi

Inntur eftir því hvort hann sé sífellt að semja tónlist og fá nýjar hugmyndir svarar Moby því til að hann geri ekki annað.

„Það sem gerðist var að þegar ég var að vaxa úr grasi bjóst ég aldrei við því að ég myndi eiga feril sem tónlistarmaður. Ef við hefðum talað saman þegar ég var 18 ára þá hefði ég giskað á að ég myndi verða heimspekiprófessor því ég var að læra heimspeki í háskólanum. Ég hefði haldið að ég myndi halda mig við heimspekina og semja tónlist í frítíma mínum sem enginn myndi hlusta á.

Ég bjóst aldrei við að fá plötusamning eða að spila á tónleikum sem fólk myndi mæta á. Þannig að það kom mér mjög á óvart á tíunda áratugnum þegar ég var farinn að ná smá velgengni,“ segir hann og bætir því við að þegar hann hafi unnið að plötum eins og Play og 18, sem nutu góðs gengis, hafi hann eytt góðum tíma í að finna út hvernig hann ætti að vera tónlistarmaður.

„Ég velti því fyrir mér hvernig ég ætti að vera tónlistarmaður á tónleikaferðalögum og tónlistarmaður sem seldi plötur og skrifaði undir geggjaða samninga.“

Moby bjóst aldrei við því að eiga feril sem tónlistarmaður.
Moby bjóst aldrei við því að eiga feril sem tónlistarmaður. Ljósmynd/Mike Formanski

Þá segist hann á einhverjum tímapunkti, eflaust í kringum 2008, hafa áttað sig á því að hann langaði alls ekki að hugsa um viðskiptalegu hlið tónlistarinnar.

„Og ef ég á að vera hreinskilinn við þig þá líkaði mér þessi viðskiptalega hlið ekki og ég var ekki góður í henni. Það eru sumir tónlistarmenn, sérstaklega núna, sem búa í Los Angeles sem eru einstaklega góðir í að skilja viðskiptatengda tónlist. Ég var aldrei sá aðili. Þegar ég var að alast upp þá líkaði mér ekki viðskiptatengd tónlist svo frá 2008 þá ákvað ég eiginlega að tónlist fyrir mér væri ekki lengur vinnan mín heldur bara það sem ég elskaði. Þannig að í raun síðan þá, fyrir 15-16 árum síðan, hef ég eiginlega alltaf hugsað um tónlist sem eitthvað sem ég elska, það að búa til tónlist, að hugsa um hana og vera í samstarfi. Þannig að í kjölfarið þá hætti ég einfaldlega aldrei að vinna,“ segir hann og hlær.

„Þetta hljómar kannski undarlega en ég tek mér aldrei frídag og fer aldrei í frí því ég elska vinnuna mína. Ég elska það mikið að vinna að tónlistinni minni, vinna að aktívisma og búa til verkefni að ég get ekki hugsað mér að taka frídag.“

Leiðist að ferðast

Moby leggur af stað í tónleikaferðalag í september um Evrópu og verður það hans fyrsti túr eftir 10 ára hlé. Blaðamaður fékk að forvitnast aðeins nánar um hvað varð til þess að hann ákvað að láta verða af þessum túr eftir þetta langa hlé en tónleikarnir munu fara fram í London, Antwerpen, Berlín, Düsseldorf og París.

„Umboðsmaðurinn minn plataði mig eiginlega í þennan túr. Við höfum unnið saman í 34 ár og hann vissi að mig langaði aldrei að túra framar. Svo ég sé hreinskilinn við þig að þá finnst mér í raun ekki gaman að ferðast, mér líka ekki flugvellir og hótel. Mér líður best heima hjá mér að vinna að skapandi verkefnum, vinna að aktívisma, fara í fjallgöngur og vera úti í náttúrunni. Umboðsmaðurinn minn gerði sér grein fyrir því að eina leiðin til að fá mig til að túra væri að ég gæfi allan ágóðann af túrnum til góðgerðarmála. Ástæðan fyrir þessu tónleikaferðalagi er því sú að ég vona að túrinn gefi vel af sér því allur peningurinn fer í góðgerðarmálefni,“ segir hann en Moby er þekktur fyrir að vera mikill dýraverndunarsinni. Allur ágóði tónleikaferðalagsins kemur því til með að renna til Evrópsku dýraverndunarsamtakanna.

Segir hann gríðarlega mikilvægt fyrir sig að geta aðstoðað á þennan hátt og gefið af sér. „Þetta er það sem mitt aðalstarf snýst um. Þarna liggur fókusinn minn og markmiðin. Sem dæmi þá á ég lítið sjónvarps- og framleiðslufyrirtæki sem kallast Little Walnut og þar reynum við í allri okkar vinnu að taka ávallt fyrir málefni aktívista, baráttumálin. Hvort sem við erum að hjálpa öðrum að framleiða kvikmyndir eða að búa til okkar eigin þá veltum við því alltaf fyrir okkur hvort við séum að hjálpa, gera gagn og reyna að gera hlutina betri. Því heimurinn þarf ekki meira af heilalausu sjónvarpsefni,“ segir hann og skellir upp úr.

„Þannig að við veltum þessari spurningu alltaf upp. Alveg eins og ég geri sem manneskja, hvað get ég gert til að hjálpa? Þannig að þetta er það sem dagvinnan mín snýst um, að hugsa sérstaklega um dýravernd og aktívisma. Hvernig get ég fært nálina frá þeim stað sem við erum á, ýtt hlutunum á betri stað? Ég veit ekki hvort ég sé góður í því, ég veit ekki hvort ég sé að gera eitthvað gott og ná einhverjum árangri en fyrir mér þá er þetta starfið mitt.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir