Var með Ísland á heilanum

Fred Armisen kemur hingað til lands í september.
Fred Armisen kemur hingað til lands í september. Ljósmynd/Aðsend

„Ég elska Ísland. Ég var með landið á heilanum í nokkurn tíma,“ segir bandaríski fjöllistamaðurinn Fred Armisen spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að koma með uppistandssýningu sína Comedy for Musicians (But Everyone is Welcome) til Íslands.

Armisen er á leið í Evróputúr og verður fyrsta sýningin í Reykjavík. Hún fer fram í Háskólabíói 21. september. 

Armisen hefur komið víða við á ferli sínum sem grínisti, tónlistarmaður og leikari. Meðal annars hefur hann komið fram í sjónvarpsþáttunum New Girl, Brooklyn Nine-Nine, Parks and Recreation og Wednesday. Hann er þó líklega þekktastur fyrir hlutverk sitt í grínþáttunum Saturday Night Live, en hann kom fram í þeim frá árinu 2002 til 2013. 

Blaðamaður mbl.is ræddi meðal annars við Armisen um uppistandssýningu hans Comedy for Musicians (But Everyone is Welcome) og ást hans á Íslandi, sem varð blaðamanni ljós strax í byrjun viðtals. 

Finnst gott að vera í Reykjavík

Armisen kveðst hafa komið hingað til lands sex eða sjö sinnum. Hann hefur meðal annars tekið upp tvo þætti af sjónvarpsþáttunum Documentary Now! og unnið að tónlistarmyndbandi á Íslandi. Armisen segist ekki vera hrifinn af því að fara í frí, en hann hafi gert undantekningu fyrir Ísland. 

Þrátt fyrir að hafa heimsótt Ísland nokkrum sinnum hefur Armisen ekki ferðast mikið um landið. Þegar hann hefur komið hingað hefur hann aðallega varið tíma sínum í Reykjavík og nágrenni borgarinnar. 

„Mér finnst ég bara vera nógu ánægður í Reykjavík,“ segir Armisen. Spurður hvers vegna hann sé svona hrifinn af Reykjavík segir Armisen:

„Þetta er fullkominn staður.“ Þá kveðst hann vera einstaklega hrifinn af bárujárnshúsunum í miðbænum. Þegar hann heimsótti borgina árið 2015 deildi hann meðal annars mynd af bárujárnshúsi á Skólavörðustíg á Instagram.

View this post on Instagram

A post shared by Fred Armisen (@sordociego)

Armisen hefur nokkrum sinnum heimsótt Ísland að vetri til. Hann segist sérstaklega hrifinn af myrkrinu sem fylgi íslenska vetrinum, eitthvað sem margir Íslendingar deila ekki með honum.

„Ég veit ekki hvað þau voru að segja“

Armisen segir eitthvað kómískt og heiðarlegt vera við Íslendinga, sem hann kunni að meta. Hann hefur einu sinni farið á uppistand í Reykjavík, en það var Mið-Íslandshópurinn sem kom þar fram.

„Þetta fór allt fram á íslensku og ég veit ekki hvað þau voru að segja, en það var samt fyndið,“ segir Armisen.

Björn Bragi Arnarsson uppistandari deildi mynd af Mið-Íslandshópnum og Armisen eftir sýningu þeirra í Þjóðleikshúskjallaranum árið 2015. Einnig deildi Armisen myndbandi af Ara Eldjárn, sem kom fram á uppistandinu.

View this post on Instagram

A post shared by Fred Armisen (@sordociego)

Hefur hlustað á Sykurmolana, Sigurrós og Björk

Eitt skiptið sem Armisen var hér í heimsókn kíkti hann á Pönksafnið í miðbæ Reykjavíkur. Hann segist hafa lært mikið um íslenska tónlist á safninu, en hann vilji þó læra meira. Armisen kann að meta íslenska tónlist og segir hann Íslendinga hafa framleitt mjög góða tónlist. Hefur hann meðal annars hlustað á Sykurmolana, Sigurrós og Björk.

Þá er Armisen einnig hrifinn af íslenskri tungu og kveðst vilja læra málið, eða allavega einhverja frasa. Á meðan á viðtalinu stóð kenndi blaðamaður honum meðal annars að segja „ég spila á trommur“ og „takk“. 

Hláturinn lengir lífið er velþekktur frasi á Íslandi. Spurður hvort hann sé sammála svarar Armisen játandi. Hann segir hlátur gera lífið eftirminnilegt.

„Þegar ég hugsa um það sem ég hef elskað mest í lífi mínu þá eru það stundir þar sem ég hef hlegið,“ segir Armisen og nefnir sérstaklega stundir þar sem hann hefur verið í hláturskasti með vinum sínum.

Armisen segist hafa vitað síðan hann var ungur drengur að …
Armisen segist hafa vitað síðan hann var ungur drengur að hann ætti að vinna í skemmtanabransanum. AFP/Michael Tran

Draumurinn rættist

Armisen segist hafa vitað síðan hann var ungur drengur að hann hafi viljað vinna í skemmtanabransanum. 

„Síðan ég var lítill krakki hef ég ekki séð aðra framtíð fyrir mér,“ segir hann.

Spurður hvaða ráð hann myndi gefa einhverjum sem dreymi um að vera uppistandari segir Armisen mikilvægt að halda margar sýningar og hafa ekki áhyggjur af því hvort allt heppnist fullkomlega. Það sé alltaf hægt að læra af því sem misheppnist. Þá sé mikilvægt að umkringja sig fólki sem fær mann til að hlæja. 

Íslendingar tali góða ensku

Eins og áður segir verður Armisen með uppistand í Háskólabíói 21. september. 

Spurður hverju Íslendingar megi búast við á sýningunni segir Armisen að hann muni meðal annars spila þekkt lög og bregðast við þeim. Einnig muni hann spila á trommur, herma eftir mismunandi trommurum og tala um hvernig það er að vera í hljómsveit.

Armisen ætlar einnig að reyna tala ensku með mismunandi hreimum. Hann segist vilja læra íslenskan hreim, en það geti verið erfitt: 

„Vandamálið er að í hvert skipti sem ég hef komið til Íslands tala allir reiprennandi ensku,“ segir Armisen og segist bara heyra örlítinn íslenskan hreim þegar Íslendingar tala við hann ensku. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir