Átta Íslendingar eru tilnefndir til Emmy-verðlauna í ár.
Eins og sagt var frá í gær hlaut kvikmyndatónskáldið Atli Örvarsson tilnefningu í flokki framúrskarandi frumsaminna tónverka fyrir þáttaseríu. Tónlistin sem um ræðir er úr þáttunum Silo úr smiðju AMC Studios og eru sýndir á AppleTV+.
Sjö Íslendingar hlutu einnig tilnefningar fyrir vinnu sína í bandarísku þáttaröðinni True Detective: Night Country, en sú hlaut í heildina 19 tilnefningar. Þáttaröðin, sem sló áhorfsmet hjá HBO, var að stórum hluta tekinn upp á Íslandi, í Keflavík og á Dalvík, og komu margir Íslendingar að framleiðslu þeirra.
Þau sem hlutu tilnefningar fyrir True Detective: Night Coutry eru Skúli Helgi Sigurgíslason fyrir hljóðblöndun, Eggert „Eddi“ Ketilsson fyrir tæknibrellur, Alda B. Guðjónsdóttir fyrir val á leikurum, Linda Garðar og Rebekka Jónsdóttir fyrir búningaval og þær Flóra Karítas Buenaño og Hafdís Pálsdóttir fyrir förðun.
Sjónvarpsþættirnir Shogun sveipuðu að sér flestum tilnefningum eða 25 talsins og sjónvarpsþættirnir The Bear 23.