Kærasta Clint Eastwood, Christina Sandera, er látin 61 árs að aldri. Hún lést í gær en nákvæm dánarorsök liggur ekki fyrir.
Eastwood greinir frá andlátinu í tilkynningu þar sem hann minnist hennar sem yndislegrar og umhyggjusamrar konu. „Ég mun sakna hennar mjög mikið,“ segir hann í tilkynningunni.
Samkvæmt heimildum People kynntist parið árið 2014 á Mission Ranch-hótelinu í Kaliforníu. Sandera hélt sig frá sviðsljósinu þrátt fyrir að kærasti hennar væri þekktur leikari.
Þá er ekki vitað mikið um líf hennar, annað en að hún hafi verið með leikaranum.