Kæru vættir, færið okkur logn!

​Heimskautsgerðið hefur burði til að verða lyftistöng fyrir samfélagið á …
​Heimskautsgerðið hefur burði til að verða lyftistöng fyrir samfélagið á ­Raufarhöfn, að mati Axels Flex Árnasonar.

Víkingamálmbandið Skálmöld mun halda stórtónleika undir berum himni í Heimskautsgerðinu á Raufarhöfn 7. september næstkomandi. Öllu verður tjaldað til og eins gott að veðurguðirnir sýni velþóknun sína á málmlistinni í verki.

„Heimskautsgerðið er okkar magnaðasta útilistaverk og hefur heillað mig frá upphafi. Alveg galin en um leið metnaðarfull og framsækin hugmynd og það hefur lengi staðið til að nota hana sem umgjörð utan um tónleika eða viðburð af því tagi,“ segir Axel Flex Árnason, verkefnisstjóri yfir tónleikunum. Yfirskrift þeirra er Activate The Arctic Henge, eða Virkjum Heimskautsgerðið.

Félagasamtökin sem eiga gerðið standa að tónleikunum með það að markmiði að vekja athygli á því og laða gesti austur á Melrakkaás á Raufarhöfn. „Eftir að Erlingur Thoroddsen, sem átti hugmyndina að gerðinu, féll frá fyrir nokkrum árum hefur vantað einhvern til að halda merki þess á lofti og mér er ljúft og skylt að taka þátt í því starfi,“ segir Axel sem á ættir að rekja til Raufarhafnar. „Ég þekki þetta svæði mjög vel. Það er ótrúlega fallegt og í raun algjör töfrastaður.“

Hann segir hugmyndina um að halda tónleika þarna nokkurra ára gamla en núna hafi loksins verið hægt að hrinda henni í framkvæmd með styrk frá Uppbyggingarsjóði. „Sjálfur er ég innblásinn af hönnuði gerðisins og vil hafa þessa tónleika virkilega mikilfenglega; ætla til dæmis að láta smíða dreka fyrir sviðsmyndina, svo eitthvað sé nefnt.“

Axel segir Skálmöld hafa verið fyrsta valkost. „Það segir sig sjálft; þessi vettvangur er sérsniðinn fyrir þá. Strákarnir munu gefa sig alla í þetta verkefni eins og þeirra er von og vísa,“ segir hann en Skálmöld hefur á plötum sínum sex skapað mergjaðan heim, þar sem innblástur er meðal annars sóttur í norræna goðafræði og víkingaöldina.

Hið íslenska Spinal Tap 

Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur Skálmaldar, er staddur í sumarfríi á sólarströnd þegar ég næ símasambandi við hann – fjarri duttlungafullu íslensku haustinu. Það breytir þó ekki því að hann er þegar farinn að stilla sig inn á verkefnið.

​Skálmeldingarnir Snæbjörn Ragnarsson og Þráinn Árni Baldvinsson í ham á …
​Skálmeldingarnir Snæbjörn Ragnarsson og Þráinn Árni Baldvinsson í ham á tónleikum. mbl.is/Eggert Jóhannesson


„Hugmyndin er ekki frá okkur komin, við vorum bara ráðnir til að spila þarna. Einhver sér ábyggilega augljósa tengingu þarna á milli: Heimskautsgerðið er hið íslenska Stonehenge og við getum alveg tekið að okkur að vera hið íslenska Spinal Tap. Það er sturluð pæling að gera þetta og ekki þurfti að sannfæra okkur, við sögðum strax já. Maður finnur um leið hvort vel er staðið að hlutunum og hvort tilboð eru hugsuð út í gegn. Síðan hefur þetta að vísu undið upp á sig, til stendur að taka giggið upp fyrir sjónvarp, sem gerir þetta bara ennþá meira spennandi.“

Hann lofar fullri keyrslu. „Hvergi verður slegið af; þetta verður risastórt Skálmaldargigg með öllu tilheyrandi. Við munum gefa okkur alla í þetta.“

Einn samningafund á þó eftir að halda – við veðurguðina, tja, eða vættina. „Við ráðum við hitastigið og úrkomu en fari að hvessa flækist málið. Allt snýst um vindhraðann en þessi tími á Íslandi getur bæði verið töfrum líkastur og alveg vonlaus. Við verðum öll að biðja vættina um logn eða alla vega hægan vind. Það hlýtur að ganga, ef við leggjumst öll á eitt.“

Nánar er fjallað um tónleikana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að passa að sambönd þín við vini og vandamenn staðni ekki. Standsetning húsnæðis, endurbætur eða verslunarleiðangur fyrir heimilið kætir þig mjög.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Anna Margrét Sigurðardóttir
3
Eva Björg Ægisdóttir
4
Torill Thorup
5
Ragnheiður Gestsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að passa að sambönd þín við vini og vandamenn staðni ekki. Standsetning húsnæðis, endurbætur eða verslunarleiðangur fyrir heimilið kætir þig mjög.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Anna Margrét Sigurðardóttir
3
Eva Björg Ægisdóttir
4
Torill Thorup
5
Ragnheiður Gestsdóttir