Bergþór hefur bara borðað kjöt í tvo mánuði

Svona hefur meðalmáltíð Berþórs Mássonar litið út síðustu fjórar vikur.
Svona hefur meðalmáltíð Berþórs Mássonar litið út síðustu fjórar vikur. Samsett mynd

Seinustu 57 daga hefur Bergþór Másson, athafnamaður og Skoðanabróðir, ekkert annað borðað en dýraafurðir. Hann stefnir að því að vera hrein kjötæta í 180 daga. Markmiðið er að hreinsa bæði líkama og sál og Bergþór segir árangurinn strax farinn að sjást.

„Ég er að taka sex mánuði þar sem ég borða ekkert nema dýraafurðir. Ég borða kjöt og smjör og egg,“ útskýrir Bergþór í samtali við mbl.is. Þetta er því í raun andstæðan við að vera vegan.

Hugmyndin er að hreinsa líkamann af unnum matvælum, samhliða því að sleppa kolvetnum. Hann birtir nær daglega myndskeið á TikTok þar sem hann segir frá kjötferðalagi sínu.

„Pælingin með þessu er að borða eins hreint og þú mögulega getur til þess að líkaminn fái þennan tíma og geti læknað sjálfan sig frá öllu áreitinu sem fylgir því að borða venjulegan mat, með aukaefnum og repjuolíu,“ segir hann.

Þá drekkur hann ekkert nema vatn og kaffi. „Ég leyfi mér kaffi.“

Lífaldurinn og fituprósentan lækkað

„Þetta hefur gengið dásamlega,“ segir Bergþór aðspurður. Hann hyggst fara í mælingar á tveggja mánaða fresti. Síðasta mæling sýndi mikinn árangur, eins og sjá má á myndskeiði sem Bergþór birti á samfélagsmiðlum.

„Það voru rosalegar niðurstöður,“ segir hann. Í myndskeiðinu segir Bergþór að lífaldurinn (út frá líkamlegu ástandi) hafi lækkað úr 31 ári í 20, fituprósentan minnkað um 4% og vöðvamassio aukist um kíló.

Hann viðurkennir þó fúslega að það sé ekki endilega bara kjötátið sem olli þessum breytingum – hvort sem það varði líkamlega eða andlega heilsu.

„Síðan er ég líka að gera öndunaræfingar á hverjum degi, fara í ræktina, fara í sánu og fara í göngutúra og segja satt og vera góður við fólk. Vera þakklátur,“ segir hann.

„Þetta er í rauninni svolítð heildrænt prójekt. Það er erfitt að vísindalega staðfesta það að þetta sé bara kjötið en maður getur alveg gefið sér það að kjötið – og í rauninni að vera komin í burtu frá öllu hinu á svona ótrúlega skýran hátt – er að gera merkilega hluti.“

Ekkert að finna upp hjólið

Hvers vegna bara kjöt? Er hann ekkert að fá þér kartöflur með þessu líka? „Þetta snýst líka um að fara í ketósis, borða engin kolvetni“ segir hann. 

Hann tekur þá fram að þykist sjálfur hafa fundið upp kjötætumataræðið. Hugmyndina sækir hann allra helst til læknisins Shawn Baker.

Þetta er heldur ekki fyrsta sinn sem Bergþór prófar slíkt mataræði þar sem hann reyndi fyrst við kjötætuna í fyrra. „Það var allt of stutt því maður byrjar ekki að sjá breytingar fyrr en eftir svona tvo eða þrjá mánuði.“ Og þess vegna ákvað hann að prófa hálft ár.

„Augljóslega að virka“

Bergþór tekur þó fram að hann sé ekki að þessu til að sannfæra nokkurn um neitt. Hann sé í raun að gera þetta fyrir sjálfan sig, en vilji þó leyfa alþjóð að fylgjast með.

„Í öllu þessu verkefni held ég engu fram. Ég segi ekki grænmeti er óhollt,“ segir hann. „Mín skilaboð eru bara að ég er að prófa þetta og það er augljóslega að virka.“

Þetta er því í raun bara tilraun.

„Ef þetta er á rófinu milli vísindalegrar tilraunar og listræns gjörnings myndi ég miklu frekar kalla þetta listrænan gjörning.“

Fær kjötið „frítt“

Bergþór miðar við að borða að minnsta kosti kíló af kjöti á hverjum degi – tvær máltíðir á dag, hvor um 1.000 til 1.500 hitaeiningar. Í upphafi borðaði hann oftast nautakjöt, einkum hakk, en að undanförnu hefur hann mest borðað lamb. 

Það er vissulega eitt vandamál sem fylgir því að borða að minnsta kosti kíló af kjöti á hverjum degi: kjöt er dýrt. 

En Bergþór fann þó lausn við því. Hann spurði Kjötkompaníið hvort það vildi styrkja þennan gjörning. Fyrirtækið tók vel í hugmynd Bergþórs og sér nú um að skaffa honum kjöt og hann auglýsir fyrirtækið í TikTok myndskeiðum sem hann birtir nær daglega.

@bm1995amorfati SEX MÁNUÐIR - ekkert nema kjöt - vika #1 #fyrirþig #fyp ♬ Can't Tell Me Nothing - Kanye West

Veistu eitthvað hversu mikið þetta myndi kosta annars [þ.e. ef hann hefði ekki fengið styrk]?

„Það er í rauninni erfitt að segja til um það,“ svarar Bergþór og tekur fram að það væri vissulega dýrt að fara á kjötborð á hverjum degi.

„En á sama tíma heyrir maður af mörgum sem eru í þessu að það kaupir sér heilan nautaskrokk eða lambaskrokk, þá þarf þetta ekki að vera svona dýrt,“ bætir hann við.

„En mín leið, þetta er klárlega dýrara en eitthvað svona meðal-diet hjá venjulegri manneskju. En þarf alls ekki að vera það,“ segir hann. „En auðvitað er þetta dýrt ef maður er í Ribeye á hverjum degi og dýrasta og flottasta kjötinu. Maður leyfir sér það stundum en ekki alltaf.“

Býst við biluðu sixpakki

Hverju ertu að búast við þegar þetta er allt búið?

„Ég er að búast við fullkominni heilsu,“ svarar hann og heldur áfram:

„Ég er að búast við frelsi frá eigin líkama. Ég er að búast við glansandi guðdómlegu sixpakki sem er að mótast hægt og rólega. Ég er að búast við fullkominni húð, algjörlega sléttri og yndislegri húð. Og síðan er ég að búast við mjög hreinum haus og tærri hugsun, ég hef einnig verið að upplifa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið hrókur alls fagnaðar að undanförnu og ættir að gefa sjálfum þér frí frá félagslífinu. Gefðu þér tíma til að slaka á.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú hefur verið hrókur alls fagnaðar að undanförnu og ættir að gefa sjálfum þér frí frá félagslífinu. Gefðu þér tíma til að slaka á.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Hugrún Björnsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup