„Ég er ánægður með þetta hlutverk, bæði að hafa landað því og hvernig tókst til. Þetta fékk mann aðeins upp á tærnar,“ segir Sveinn Ólafur Gunnarsson leikari.
Sveinn fór með hlutverk Haraldar harðráða í þáttunum King and Conqueror en tökum á þeim lauk nýlega hér á landi. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu fjalla þættirnir um Vilhjálm sigursæla Englandskonung og er framleiðslan á vegum sjónvarpsstöðvanna CBS og BBC. Baltasar Kormákur er einn leikstjóra og sá fyrirtæki hans, RVK Studios, um framleiðsluna hér á landi. Kostnaður við gerð þáttanna er tæpir sjö milljarðar króna.
Greint var frá því á vef Hollywood Reporter á dögunum að þekkt nöfn hefðu bæst í hóp leikara í þáttunum. Þar á meðal eru Elander Moore og Jason Forbes en áður höfðu verið kynnt til leiks nöfn á borð við James Norton, Nikolaj Coster-Waldau, Emily Beecham og Clémence Poésy.
Ingvar E. Sigurðsson verður að sjálfsögðu í þáttunum en ráðning Sveins kemur öllu meira á óvart enda hefur hann minna gefið sig að erlendum verkefnum.
„Ég fór í gegnum prufuferli. Það þurfti að fara í gegnum marga hvort maður væri boðlegur í hlutverk í þáttunum. Reyndar var ég fyrst ráðinn í eitt hlutverk og svo í annað. Þetta var alltaf að stækka og svo fékk ég á endanum að leika Harald harðráða. Ég var gríðarlega ánægður með það,“ segir hann.
Aðkoma Sveins að gerð þáttanna var langt ferli. Margra mánaða undirbúningur fyrir nokkra tökudaga. „Ég ráðfærði mig við raddþjálfa. Þó ég hafi leikið eitthvað á ensku er ég ekki beint hokinn af reynslu. Þessi framleiðsla er stærri að umfangi en maður er vanur og ég vildi vera fær í flestan sjó,“ segir hann og bætir við að öll þessi vinna hafi verið mjög skemmtileg.
Sveinn hefur tekist á við fjölbreytt hlutverk hér heima og flest þeirra hafa verið talsvert mýkri en Haraldur harðráði. Óhætt er að segja fleiri gætu séð hann fyrir sér sem kennara en sem grjótharðan bardagamann. Ekki skal þó vanmeta norrænt yfirbragð, góða skeggrót og réttan undirbúning.
MMA-bardagakappar voru fengnir til að undirbúa leikara fyrir hlutverk sín og skipuleggja bardagasenurnar. „Við áttum náttúrlega að vera klár í þessa svakalegu bardaga. Ég var löðursveittur að koma mér í form til að geta sveiflað þessari risavöxnu exi. Svo sagði einn MMA-kappinn mér að ég þyrfti ef til vill að vera ber að ofan og þá gaf ég enn meira í. Ég ætlaði auðvitað ekki að sveifla bara bumbu og brjóstum þarna. Svo kom á daginn að ég var í fullum herklæðum – en ég var í formi.“
Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 17. júlí.