Villikötturinn sem neitaði að yfirgefa Vatnsenda

Vatnsenda-Villi kærir sig ekki um að flytja úr hverfinu.
Vatnsenda-Villi kærir sig ekki um að flytja úr hverfinu. Ljósmynd/Bjarnveig Eiríksdóttir

Villikötturinn Vatnsenda-Villi er mörgum íbúum í Hvörfunum í Kópavogi kunnugur. Villi er einn þeirra villikatta sem að eiga hvergi heima en eiga sér þó samastað og velunnarana víða. Frá því árið 2020 hefur Bjarnveig Eiríksdóttir séð Villa fyrir mat og skjóli eftir að hann gerði sig heimkominn hjá henni og neitaði að fylgja þáverandi umsjónaraðilum yfir í Seljahverfið.

Bjarnveig hefur búið í Hvörfunum í um 10 ár og fór að taka eftir Villa í kringum árið 2016. 

„Þá er hann í kringum safnhauginn í garðinum mínum, þar voru náttúrulega mýs, ég hugsa að hann hafi verið á músaveiðum þar. Ég gat aldrei nálgast hann. Ef ég kom í svona 10 metra fjarlægð við hann þá var hann bara stunginn af, hann var rosalega fælinn. Ég skildi stundum eftir mat, hann var svona fremur umkomulaus. Svo heyrði ég ekkert fyrr en það kemur póstur í Vatsnendahverfið, grúbbuna sem sagt. Þá er kona í nágrenninu, Vallý, að spyrja hvort einhver kannist við Villa. Þá er einmitt ein kona úr Álfahvarfinu og ein kona úr Dimmuhvarfinu og ég, og við svörum allar: „Já hann hefur verið að sniglast hjá mér,““ segir Bjarnveig.  

Facebook-færsla frá því 2018 þegar Villi vakti athygli í hverfinu.
Facebook-færsla frá því 2018 þegar Villi vakti athygli í hverfinu. Ljósmynd/Skjáskot

Vildi ómögulega búa í Seljahverfinu

Næst hafi hún heyrt af Villa þegar fyrri umsjónaraðili hans, hún Vallý, lýsti eftir honum. Þá hafði Vallý fengið hjálp frá samtökunum Villiköttum, látið fanga hann, gelda og eyrnamerkja. Erfiðlega gekk þó að manna Villa, Vallý flutti í Seljahverfið og tók Villa með sér. Villi, sjálfum sér samkvæmur, strauk ítrekað og fór aftur yfir á gömlu heimahagana. 

Bjarnveig hjálpar Vallý að ná Villa en daginn eftir er hann kominn aftur. 

„Þetta var fimmta tilraun Vallýjar til þess að nauðungarflytja Villa yfir í 109, Seljahverfið en hann bara vildi ekki vera þar og stakk alltaf af þó hann væri með bæli í garðinum hjá henni. Þannig að við sömdum um það að ég myndi bara taka hann að mér, þetta hefur þá verið 2020 og síðan hefur hann bara búið undir heita pottinum,“ segir Bjarnveig. Undir heita pottinum eru heit rör, þar finnst Villa best að vera. 

Hún nefnir að fjölskyldan opni alltaf bakdyrahurðina fyrir Villa og hann komi inn og fái sér að borða um það bil tvisvar á dag. Það vill svo skemmtilega til að fjölskyldan er ekki með neitt annað gæludýr á heimilinu. 

„Ef við erum í garðinum eða á pallinum þá er hann bara nokkrum metrum frá. [...] þetta er orðið húsið hans.“

Villi liggur eins og konungur í ríki sínu. Enda valdi …
Villi liggur eins og konungur í ríki sínu. Enda valdi hann sér heimili vel og vandlega. Ljósmynd/Aðsend

Straumur af ferfættum vinum 

Þó að margt hafi breyst frá því að Bjarnveig kynntist Villa og hann orðinn örlítið öruggari á svæðinu er hann er enn verulega hvekktur í kringum mannfólk. Hann er þó vel þekktur í hverfinu, bæði af mönnum og köttum. 

„Það er straumurinn af nágrannaköttunum að koma að spyrja eftir Villa. Hann á vini, það er ein þrílit læða sem heitir Snúlla sem kemur mjög ogt og svo ungur fressköttur sem heitir Kafteinn, svartur og hvítur. Þau koma nánast á hverjum degi að spyrja eftir Villa og þau hanga saman. Meira að segja hef ég séð hann leika við Snúllu í eltingaleik í garðinum.“

„Á góðri stundu liggur hann í sólbaði og svo koma vinirnir í heimsókn og þau flatmaga þarna saman,“ segir Bjarnveig. 

Villi og vinir hans Snúlla og Láki, plotta heimsyfirráð.
Villi og vinir hans Snúlla og Láki, plotta heimsyfirráð. Ljósmynd/Aðsend

Eyddi einni jólanótt í gestaherberginu

Á veturna hefur Bjarnveig reynt að fá Villa inn, sérstaklega þegar það er mjög kalt. Þess á milli mokar hún leið að uppáhalds stað Villa undir heita pottinum. 

Ein jólin var þó allt of kalt, mínus 20 gráður, og Villi læddist inn og svaf í gestaherbergi fjölskyldunnar. Bjarnveig segir Villa hafa gert það nokkrum sinnum yfir allan þennan tíma. 

Ljóst er að Villi á sér vini, velunnara og aðdáendur víða. Talið er að hann sé um tíu ára gamall og mun hann því vonandi halda áfram að heiðra íbúa í Hvörfunum með nærveru sinni í mörg ár til viðbótar. Kettirnir í hverfinu myndu að minnsta kosti sakna hans. 

Sjáir þú Villa á förnum vegi er því betra að kasta á hann kveðju en klappi, en líkt og aðrir villikettir fer hann svo sannarlega sínar eigin leiðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Stundaðu hreyfingu, heilsurækt og lestur til þess að auka þekkinguna. Líklega kemur gæludýr á heimilið fljótlega.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Stundaðu hreyfingu, heilsurækt og lestur til þess að auka þekkinguna. Líklega kemur gæludýr á heimilið fljótlega.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Anna Margrét Sigurðardóttir