Þjóðarsport að púa

„Það er hálfgert þjóðarsport í Bayreuth að púa niður leikstjóra …
„Það er hálfgert þjóðarsport í Bayreuth að púa niður leikstjóra eftir sýningar,“ segir leikstjórinn Þorleifur Örn. Allt ætlaði um koll að keyra í leikhúsinu eftir frumsýninguna. Ljósmynd/Enrico Nawrath

Óperan Tristan og Ísold eftir Richard Wagner í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar var frumsýnd á hinni virtu Bayreuth-hátíð í Þýskalandi á fimmtudag. Um er að ræða opnunarsýningu hátíðarinnar sem stendur til 27. ágúst. Ólafur Kjartan Sigurðarson fer með hlutverk skjaldsveinsins Kurwenals í sýningunni og syngja Andreas Schager og Camilla Nylund titilhlutverkin. Semyon Bychkov heldur um tónsprotann og Vytautas Narbutas, sem búsettur hefur verið á Íslandi í fjölda ára, hannar leikmyndina.

„Þetta var magnað,“ segir Þorleifur Örn í samtali við Morgunblaðið eftir frumsýninguna þegar hann er spurður út í viðtökurnar. „Það er hálfgert þjóðarsport í Bayreuth að púa niður leikstjóra eftir sýningar. Ég beið þarna hjá tjaldinu og heyrði hvernig allt ætlaði um koll að keyra þegar Tristan og Ísold stigu á svið og sömuleiðis þegar hljómsveitarstjórinn kom fram. Þegar komið var að mér byrjuðu um tuttugu prósent salarins að púa en restin braust út í fagnaðarlæti og fólk stappaði með fótunum og rauk jafnvel á fætur. Aftur ætlaði allt um koll að keyra og þetta var mjög gaman, ég hef aldrei upplifað aðra eins frumsýningu. Það var rauður dregill og mörg fyrirmenni mætt og auk þess hátt í 200 blaðamenn.

Ólafur Kjartan Sigurðarson, sem syngur hlutverk Kurwenals, er hér fyrir …
Ólafur Kjartan Sigurðarson, sem syngur hlutverk Kurwenals, er hér fyrir miðju. Ljósmynd/Enrico Nawrath

Heillaði alla upp úr skónum

Morgunblaðið sló einnig á þráðinn til Þýskalands fyrr í vikunni og náði tali af Ólafi Kjartani á milli æfinga. Hann var vant við látinn daginn eftir frumsýningu enda hátt í tuttugu sýningar fram undan hjá honum á hátíðinni. 

Að sögn Ólafs Kjartans hefur undirbúningurinn gengið afar vel. „Ég hef þekkt Þorleif Örn lengi, ég leyfi mér að segja síðan að hann var stráklingur. Við höfum aldrei unnið saman en mig hefur samt lengi langað til þess. Það að hann sé kominn hingað sem leikstjóri með nýja uppsetningu á Tristan og Ísold segir í raun allt sem segja þarf um það á hvaða stalli hann er í óperuheiminum og sömuleiðis leikhúsheiminum í dag. Að mínu mati er hann einn af mest spennandi leikstjórum í bransanum á heimsvísu.

Æfingaferlið er búið að vera eins og draumur í dós. Sjálfur hef ég ekki síst haft gaman af því að horfa á og fylgjast með því hvernig Þorleifur Örn hefur heillað alla upp úr skónum. Ég get alveg leyft mér að segja að það gera alls ekkert allir leikstjórar. Hann hefur bæði mikla hæfileika og persónutöfra, þannig að það er ekki annað hægt en að hrífast með, og nú er bara að vona að áhorfendur og gagnrýnendur taki vinnu hans vel.“

Lengri útgáfa af viðtalinu var birt á menningarsíðum Morgunblaðsins laugardaginn 27. júlí. 

Vytautas Narbutas hannaði þessa tilkomumiklu leikmynd.
Vytautas Narbutas hannaði þessa tilkomumiklu leikmynd. Ljósmynd/Enrico Nawrath
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan dag. Hlutirnir ganga smurt fyrir sig heima aftur á móti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
5
Eva Björg Ægisdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan dag. Hlutirnir ganga smurt fyrir sig heima aftur á móti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Ragnheiður Gestsdóttir
3
Hugrún Björnsdóttir
5
Eva Björg Ægisdóttir