Harry Potter dagurinn var haldinn hátíðlegur í dag hjá Amtsbókasafninu á Akureyri. Mörg hundruð manns mættu á bókasafnið og langflestir í búning.
„Það eru alltaf svona í kringum 800 til 1.000 gestir þennan dag,“ segir Dagný Davíðsdóttir, verkefnastjóri viðburða og kynningarmála hjá Amtsbókasafninu.
Haldið hefur verið upp á 31. júlí, afmælisdag galdrastráksins margrómaða, Harry Potter, á Amtsbókasafninu síðan árið 2017 og segir Dagný viðburðinn verða stærri og stærri með hverju árinu.
„Vinsældir Harry Potter fara sko ekki dvínandi, hann er alltaf vinsæll. Það koma alltaf nýir aðdáendur og foreldrarnir sem voru fyrstir í þessu búnir að eignast börn.“
Í ár voru sumir gestir mættir um leið og safnið opnaði í morgun.
„Sumir voru mættir hérna um leið og við opnuðum og við vorum með bíómyndir frá níu til að þau hefðu eitthvað að gera á meðan þau biðu. Svo vorum við með ratleik um fyrstu hæðina og þau fá öll fjöldabragðabaunir þegar þau eru búin að leysa það,“ segir Dagný. Þá hafi einnig verið boðið upp á sokkagetraun Dobby, myndakassa þar sem hægt var að taka mynd af sér á brautarpalli 9 3/4, töfrasprotasmiðju og fleira.
Spurð segir Dagný flesta gesti dagsins hafa mætt í búning. Vinsælasti búningurinn hafi án efa verið afmælisdrengurinn Harry.
„Það er mikill metnaður hjá þeim krökkunum og foreldrum líka. Það er mikil fjölbreytni, það var ein Vala Væluskjóða hérna áðan. Harry náttúrulega alltaf vinsæll, svo er Hermione og bara alls konar, sumir eru bara sín eigin galdrapersóna.“
Hún segir ótrúlega skemmtilegt að fá að vinna á degi sem þessum.
„Það er ótrúlega gaman. Þegar ég var að skreyta í gær, ég bara: „Guð, ég er bara að vinna við þetta.“ Gamall Potter-haus sjálf. Það er mikil gleði í húsinu, allir spenntir og að njóta sín og svo er líka æðislegt veður.“
Spurð hvaða bók sé vinsælust til útláns segir hún það sennilega vera þá fyrstu, Harry Potter og Viskusteininn.
„Hún er eiginlega alltaf á einhverjum topplistum,“ segir Dagný.