Tónlistar- og myndlistarfólkið Jóhanna Rakel Jónasdóttir, einnig þekkt undir listamannsnafninu JoeBoxer, og Indriði Arnar Ingólfsson, betur þekktur sem In3dee, gefa út fyrsta lagið sitt saman sem heitir Islandbois á morgun 2. ágúst í samstarfi við bbbbbb Records.
Þessi sumarsmellur mun taka hlustendur í dramatískt ferðalag einmana leiðsögumanns sem þráir ástina. Hann fer á sveittustu staði landsins og á flottustu barina en kemst að því að hann verður að komast burt af eyjunni.
Það kemur því ekki á óvart að Indriði og Jóhanna segja að lagið sé innblásið af því takmarkaða makaúrvali sem finnst hér á landi og þeirri ástarþrá sem allir bera innan með sér.
„Lagið varpar ljósi á tilfinningarússíbanann sem fylgir því að búa í litlu samfélagi og vilja vera elskað/ur/uð,“ segja Indriði og Rakel.
Myndlistarkonan Kristín Helga Ríkarðsdóttir gerði tónlistarmyndband Islandbois en hún kom einnig að tónlistarmyndbandi lagsins Melting Away sem hljómsveitin Ultraflex gaf út árið 2022.
Þetta er fyrsta stóra samstarfsverkefni Indriða og Jóhönnu. Þau hafa þekkst í áratug og hafa unnið saman að ýmsum verkefnum í gegnum tíðina.
Indriði byrjaði tónlistarferilinn í þungarokkshljómsveitinni MUCK. Síðan þá hefur hann gefið út tvær breiðskífur undir eigin nafni hjá útgáfufyrirtækinu Figureight Records. Undir listamannanafninu In3dee hefur hann svo gefið út eina plötu sem heitir Margrét ásamt nokkrum smáskífum. Á meðan hefur Jóhanna gefið út margar smáskífur með hljómsveit sinni CYBER.
Indriði og Jóhanna stefna að því að gera meiri tónlistarslagara í framtíðinni og eru hvergi nærri hætt.