Úr viskubrunni ömmu

Randy Blythe er mikill ömmustrákur.
Randy Blythe er mikill ömmustrákur. AFP/Suzanne Cordeiro

Þegar amma hans lá banaleguna fyrir ekki svo löngu, 94 ára að aldri, spurði Randy Blythe hana hver væri stóri munurinn á hennar kynslóð og fólkinu sem nú er í blóma lífsins. Hinn heimspekilega þenkjandi söngvari bandaríska málmbandsins Lamb of God bjóst fastlega við að hún myndi nefna annaðhvort tölvutæknina eða alþjóðahyggjuna. En nei, sú gamla var viss í sinni sök: „Randy minn, fólk er ekki eins náið og það var!“

Þetta kemur fram í viðtal við Blythe í tímaritinu RVA en hann vinnur nú að öðru bindi endurminninga sinna, Just Beyond the Light: Living With the War Inside My Head, sem koma mun út í febrúar á næsta ári. Þá verða einmitt tíu ár liðin frá því að fyrsta bindið, Dark Days: A Memoir, kom út.

Í nýju bókinni ku Blythe beina sjónum að þeim aðferðum sem hann hefur tileinkað sér til að halda sem bestri heilsu, andlegri og líkamlegri, í óreiðukenndum og oft og tíðum óútreiknanlegum heimi. Að sögn útgefandans minnir Just Beyond the Light okkur lesendur á að svo lengi sem við sitjum makindalega í veruleikanum þá muni himinninn ekki hrynja yfir okkur – þannig hafi það alltaf verið og verði alltaf.

Sefur þyrnirósarsvefni

Til þess að finna jafnvægið og freista þess að skilja það leitaði Blythe til fólks sem hann lítur upp til, svo sem ömmu sinnar. Spurður hvort hann deili téðu sjónarmiði með henni svarar söngvarinn:

„Á margan hátt en ég held samt að þetta [mannleg samskipti] sé ekki glatað fyrir fullt og fast. Það sefur bara þyrnirósarsvefni, grafið undir öllu iCloud-þvaðrinu, en mun svo rísa upp og bíta okkur í óæðri endann. Við munum alltaf þurfa á aðstoð að halda, með einum eða öðrum hætti. Fólk þekkir ekki nágranna sína lengur og tilfinningin fyrir samfélaginu sem slíku er ekki eins sterk og hún var. Fólk hefur aldrei verið eins einmana og í þessum yfirtengda heimi – einkum ungt fólk. Samskipti þess við umheiminn eiga sér stað gegnum stafræna miðla sem stuðlar að sýndartengslum en eins og við þekkjum þá kalla alvöru tengsl á eiginlegan núning. Maður þarf að gefa af sér þegar maður er á staðnum, nokkuð sem er aukaatriði í stafrænum samskiptum, andspænis vegg nafnleyndarinnar.“ 

Í samtali við Loudwire Nights segir Blythe nýju bókina verða frábrugðna þeirri fyrri. Þar hafi hann fyrst og fremst verið að rekja sögu en að þessu sinni sé hann meira að velta vöngum um lífið og tilveruna. „Síðast var ég með vegvísinn fyrir framan mig en að þessu sinni var þetta miklu opnara. Og þetta er styttri bók – Guði sé lof.“

Nánar er fjallað um heimspekilegar vangaveltur málmhausa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Maður lærir vissulega að vera sjálfum sér nógur með því að útiloka aðra, en það er ekki besta leiðin. Hvettu aðra til að leggja sitt að mörkum til mannúðarmála.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir