Ari Ólafsson, söngvari og Eurovision-fari, mun fara með hlutverk í alþjóðlegri farandsýningu The Phantom of the Opera.
Söngvarinn greindi frá gleðitíðindunum á Facebook-síðu sinni fyrr í dag og birti þar ljósmynd af grímu Óperudraugsins. Hlutverkið er frumraun Ara í söngleik á atvinnuleiksviði.
„Það gleður mig að tilkynna að ég mun þreyta frumraun mína á atvinnuleiksviði í alþjóðlegri farandsýningu söngleiksins The Phantom of the Opera. Þetta er draumur að rætast,“ skrifar hann við færsluna.
Ari vakti heimsathygli þegar hann tók þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2018. Hann flutti lagið Our Choice og gerði það með mikilli prýði.