Breska glamúrfyrirsætan Katie Price var handtekin við komu á Heathrow-flugvelli í gær og færð í gæsluvarðhald.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að handtökuskipun hafi gefin út á hendur Price 30. júlí er hún mætti ekki fyrir dóm vegna gjaldþrota sinna.
Ráð er gert fyrir að Price muni fara fyrir dóm í dag.
Fyrirsætan hefur ekki átt sjö dagana sæla en hún lýsti yfir gjaldþroti í nóvember árið 2019 og aftur í mars á þessu ári.
Við dómsyfirheyrslu í febrúar var henni gert að greiða 40% mánaðartekna sinna af vefsíðunni Only Fans næstu þrjú árin vegna fyrra gjaldþrotsins.
Var hún úrskurðuð gjaldþrota í annað sinn innan við mánuði síðar vegna ógreiddra skatta. Nam skuld hennar 750.000 pund eða hátt í 133 milljónir króna.
Hafði dómari gert Price það ljóst að hún skildi mæta fyrir dóm og svara fyrir fjárhag sinn. Annars ætti hún á hættu að vera handtekin ef hún myndi ekki mæta.
Fyrirsætan virðist hafa látið varnaðarorð dómara sem vind um eyru þjóta og ferðaðist til Tyrklands í sína sjöttu andlitslyftingu og tannaðgerð fyrr í mánuðinum. Aðgerðirnar kosta allt að tvær milljónir króna.
Myndir af handtökunni hafa farið í dreifingu á ýmsum miðlum og má þar sjá Price með sárabindi um höfuð og andlit.
Katie Price to appear in court TODAY after being arrested at Heathrow pic.twitter.com/mxZMvMFnZ6
— The Sun (@TheSun) August 9, 2024