Ólympíufarinn sem heillaði alla

Yusuf Dikec keppti í skotfimi á leikunum og vakti mikla …
Yusuf Dikec keppti í skotfimi á leikunum og vakti mikla athygli. AFP/Alain Jocard

Það átti eflaust enginn von á því að einn vinsælasti ólympíufarinn í ár yrði 51 árs gamall keppandi í skotfimi með loftbyssu af 10 metra færi. Sú varð raunin er Tyrkinn Yusuf Dikec hreppti silfrið í greininni ásamt liðsfélaga sínum og varð allt í einu að samfélagsmiðlastjörnu.

Keppendur í skotfimi fá sjaldan mikla athygli á Ólympíuleikunum og það að Dikec hafi náð að vekja áhuga hjá milljónum netverja um allan heim þykir fremur merkilegt. Athyglina fær hann ekki vegna árangursins heldur vegna þess hve afslappaður hann virðist vera í keppni, með hönd í vasa og hversdagsgleraugun er hann skýtur.

„Ég er náttúruleg skytta“

Klæðaburður keppenda í loftbyssugreinum líkist búnaði sem sjá má í dystópískum tölvuleikjum eða myndasögum. Búnaður til keppni er heyrnarhlífar, sérstök skotgleraugu eða skotskór og jafnvel skothúfur.

Búnaður í skotfimi er talinn hjálpa keppendum við að ná …
Búnaður í skotfimi er talinn hjálpa keppendum við að ná betra miði. AFP

Því hefur hinn látlausi Dikec vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum fyrir að keppa bara með byssuna og mögulega ódýrustu og ómerkilegustu eyrnatappa sem hann hefði getað fundið.

„Ég þarf engan sérstakan búnað. Ég er náttúruleg skytta,“ sagði Dikec í viðtali við tyrkneska fjölmiðla spurður um klæðaburð sinn. „Ég tel betra að skjóta með bæði augun opin. Þetta hef ég rannsakað mikið, svo ég hef enga þörf fyrir þennan búnað.“

Nýtt fagn?

Frá því að hann steig inn í sviðsljósið hafa æðimargar myndir og myndbönd af honum birst á samfélagsmiðlum.

Stelling hans hefur vakið athygli meðal annarra keppenda á Ólympíuleikunum. Ólympíumeistarinn í stangarstökki karla, Armando Duplantis, fagnaði ólympíugullinu og nýju heimsmeti með því að stæla stellingu Dikecs. Hann var með aðra hönd í vasa og miðaði með hinni eins og byssu. Aðrir keppendur, Nina Kennedy í stangarstökki kvenna og Rojé Stona í kringlukasti karla, hermdu einnig eftir Dikec þegar þau fögnuðu sigri.

Duplantis fagnar ólympíusigri með stellingunni.
Duplantis fagnar ólympíusigri með stellingunni. AFP

Netverjar hafa brotið heilann um hvaðan hinn afslappaði og dularfulli Dikec komi. Sökum þess hafa sprottið upp ýmsar vangaveltur um uppruna hans. Sumir halda að Tyrkland hafi fundið einhvern Jón úti á götu, gefið honum byssuna og sent síðan á Ólympíuleikana.

En afslappaða líkamsstellingin hans hefur kynt undir kenningum um að hér sé ekki um venjulegan mann að ræða, heldur tyrkneskan leigumorðingja.

Starfaði sem undirforningi hjá tyrknesku herlögreglunni

Ekki er um auðugan garð að gresja á internetinu þegar leitað er að upplýsingum um keppendur í skotfimi enda er um að ræða keppnisgrein sem að venju vekur ekki mikla athygli. En við nánari athugun á Dikec má sjá að hann á bakgrunn úr herþjónustu, sem kyndir enn frekar undir kenningum um að hér sé um leigumorðingja að ræða.

Dikec er fæddur árið 1973 í Göksun-héraði í Tyrklandi. Árið 1999, eftir fimm ára nám í herskóla, útskrifaðist Dikec sem liðþjálfi í tyrkneska hernum og gegndi herþjónustu í eitt ár í Istanbúl.

Dikec við keppni árið 2017.
Dikec við keppni árið 2017. AFP

Hann tók upp skotfimi árið 2001 þegar hann starfaði sem undirforingi hjá tyrknesku herlögreglunni. Dikec keppti á sínum fyrstu Ólympíuleikum í Berlín árið 2008 og hefur keppt í skotfimigreinum á öllum Ólympíuleikum síðan. 

Eitt er alveg á hreinu og það er að Dikec er ein af stórstjörnum Ólympíuleikanna. Þetta er vonandi ekki í síðasta skipti sem Dikec herjar á netverja en hann stefnir á Ólympíuleikana í Los Angeles árið 2028, þá 55 ára gamall. Mögulega verða þá meiri upplýsingar um kauða á netinu.

Ítarleg umfjöllun um Yusuf Dikec er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ábending frá vini kann að koma þér að gagni fjárhagslega í dag. Þú verður að smjöri nálægt vissri persónu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Sigrún Elíasdóttir
3
Camilla Läckberg
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ábending frá vini kann að koma þér að gagni fjárhagslega í dag. Þú verður að smjöri nálægt vissri persónu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Sigrún Elíasdóttir
3
Camilla Läckberg
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir