Fimm ákærðir í tengslum við lát Perrys

Matthew Perry lést á síðasta ári.
Matthew Perry lést á síðasta ári. AFP/Gabriel Bouys

Fimm hafa verið ákærðir í tengslum við andlát Friends-leikarans Matthew Perry. Einn hefur verið handtekinn. 

Lögreglan í Los Angeles greinir frá því á blaðamannafundi að þau sem ákærð eru í málinu hafi tengsl inn í umfangsmikil glæpasamtök. 

Matthew Perry, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í gamanþáttunum Friends, fannst meðvitundarlaus á heimili sínu í Los Angeles á síðasta ári. Síðar var greint frá því að hann hefði látist vegna bráðra áhrifa ketamíns. 

Keta­mín er sterkt svæf­ing­ar- og deyfi­lyf sem einnig get­ur kallað fram of­skynj­an­ir og er því sömu­leiðis notað sem vímu­efni. Hef­ur það einnig notið auk­inna vin­sælda á síðustu árum til að vinna bug á áfeng­is­sýki og geðræn­um kvill­um eins og þung­lyndi.

Perry var í keta­mínmeðferð við kvíða og þung­lyndi er hann lést.

Í skýrslu rétt­ar­meina­fræðings var þó tekið fram að lækn­ir Perry hefði ekki veitt hon­um keta­mínmeðferð í yfir eina og hálfa viku er hann lést og því hef­ur þótt óljóst hvaðan hann fékk svo mikið magn keta­míns.

Matrin Estrada saksóknari í Kaliforníuríki á blaðamannafundinum.
Matrin Estrada saksóknari í Kaliforníuríki á blaðamannafundinum. AFP/Patrick T. Fallon

Læknar sáu honum fyrir ketamíni

Perry glímdi við áfengis- og vímuefnafíkn og oft farið í meðferð.

Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að læknar sáu honum fyrir ketamíni. Eru þar nafngreind Jasveen Sangha, sem í undirheimum Los Angeles er kölluð ketamíndrottningin, og læknirinn Salvador Plasencia. Létu þau hann hafa 20 skammta af ketamíni fyrir um 55 þúsund bandaríkjadali í reiðufé yfir tveggja mánaða skeið í fyrra. Þau sáu honum þó fyrir ketamíni yfir lengri tíma. 

Stangast þessi vinnubrögð læknanna á við vinnureglur innan heilbrigðiskerfisins og segir lögreglan að fylgjast þurfi náið með þeim sjúklingum sem eru á viðhaldsmeðferð ketamíns. Er það mat lögreglunnar að ekki hafi verið nægilega vel fylgst með Perry.

Ketamín getur meðal annars valdið háum blóðþrýstingi og öndunarörðugleikum. 

Fundu kókaín og sterk lyf

Martin Estrada, saksóknari í Kaliforníuríki, segir lögreglu hafa fundið umtalsvert magn fíkniefna á heimilinu, 80 skammta af ketamíni en einnig kókaín og mikið af öðrum sterkum lyfjum. 

Á meðal þeirra sem einnig eru nafngreindir í ákærunni er Kenneth Iwamasa, aðstoðarmaður Perrys, og Erik Flemming. Ekki er nánar gert grein fyrir því hver tengsl Flemming og Perry voru.

Fékk efnin frá ketamíndrottningunni

Anne Milgram, rannsóknarlögregla hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Los Angeles, segir að fíkniefnaneysla Perry hafi leitt hann til þess að finna sér dópsala á götum borgarinnar. Dópsalinn hafi selt honum efni frá áður nefndri ketamíndrottningu. 

Milgram segir Sangha hafa verið ljóst að magnið af ketamíni sem hún lét Perry hafa gæti leitt til ofskömmtunar. 

Hún segir enn fremur að ákærðu hafi nýtt sér fíkn Perrys, sem og frægð hans, til þess að græða. Þannig hafi Sangha rukkað hann um tvö þúsund bandaríkjadali fyrir skammt sem kostar tólf bandaríkjadali. 

Milgram segir hana hafa látið Perry fá mikið magn af ketamíni án þess að meta ástands hans. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér kann að sýnast langt í milli þess sem þú hefur og þess sem þig dreymir um. Að binda trúss sitt við ranga fólkið getur leitt til þess að framfarir stöðvist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér kann að sýnast langt í milli þess sem þú hefur og þess sem þig dreymir um. Að binda trúss sitt við ranga fólkið getur leitt til þess að framfarir stöðvist.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Torill Thorup
3
Sofia Rutbäck Eriksson
4
Solja Krapu-Kallio
5
Sarah Morgan
Loka