Einstaklingur hefur verið handtekinn í tengslum við andlát leikarans Matthew Perry.
Viðkomandi var tekinn höndum í dag, að því er lögregluyfirvöld í suðurhluta Kaliforníu tjá fréttastofu NBC.
Perry lést í október á síðasta ári vegna bráðra áhrifa ketamíns en lögregla hefur haft til rannsóknar hvernig leikarinn komst yfir efnið.
Ketamín er sterkt svæfingar- og deyfilyf sem einnig getur kallað fram ofskynjanir og er því sömuleiðis notað sem vímuefni. Hefur það einnig notið aukinna vinsælda á síðustu árum til að vinna bug á áfengissýki og geðrænum kvillum eins og þunglyndi.
Perry hafði lengi glímt við áfengis- og vímuefnafíkn og oft leitað sér meðferðar.
Var hann í ketamínmeðferð við kvíða og þunglyndi, undir eftirliti læknis, er hann lést.
Í skýrslu réttarmeinafræðings var þó tekið fram að læknir Perry hefði ekki veitt honum ketamínmeðferð í yfir eina og hálfa viku er hann lést og því hefur þótt óljóst hvaðan hann fékk svo mikið magn ketamíns.