Leikkonan Blake Lively hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu og hlotið harða gagnrýni á samfélagsmiðlum í kjölfar nýrrar kvikmyndar, It Ends With Us, sem hún fer með aðalhlutverk í ásamt leikaranum og leikstjóranum Justin Baldoni.
Lively hefur undanfarinn áratug verið ein ástsælasta leikkona Hollywood, en hún skaust fyrst upp á stjörnuhimininn með hlutverki sínu sem Serena van der Woodsen í þáttunum Gossip Girl árið 2007. Þá hefur einnig verið litið á Lively og eiginmann hennar, leikarann Ryan Reynolds, sem hin fullkomnu hjón, en nú virðist heimurinn líta öðrum augum á Lively.
Gagnrýni á leikkonuna hófust eftir að markaðsherferð kvikmyndarinnar fór af stað, en þá höfðu sögusagnir um meintar deilur og vandræði á milli Lively og Baldoni verið á sveimi eftir að myndbandi af rifrildi á milli þeirra á tökustað var lekið á netið.
Rauði þráður It Ends With Us er heimilisofbeldi, en Lively hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að forðast allar spurningar sem snúa að heimilisofbeldi í viðtölum og kynningarefni kvikmyndarinnar og þess í stað látið eins og myndin sé rómantísk gamanmynd. Hingað til hefur Baldoni verið sá eini í leikarahópnum sem hefur talað opinskátt um heimilisofbeldi. Það bætti svo einungis gráu ofan í svart þegar Lively notaði kynningarherferðina frekar til að kynna eigin hárvörulínu, Blake Brown, og nýja kvikmynd eiginmanns síns, Deadpool & Wolverine.
Í kjölfar bakslagsins birti norski blaðamaðurinn Kjersti Flaa myndband á YouTube úr viðtali við Lively og mótleikara hennar, Parker Posey, fyrir kvikmyndina Cafe Society árið 2016. Myndbandið hefur farið eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum og fengið milljónir áhorfa, en Flaa lýsir viðtalinu sem því óþægilegasta sem hún hafi nokkurn tímann upplifað, en yfirskrift myndbandsins er: „Blake Lively-myndbandið sem fékk mig til að vilja hætta í vinnunni minni.“
Í byrjun myndbandsins óskar Flaa leikkonunni, sem var ófrísk að sínu öðru barni, til hamingju með óléttukúluna sína. Lively virðist pirruð yfir ummælunum og óskaði blaðamanninum kaldhæðnislega til hamingju með „óléttukúluna“ sína, en hún var ekki ófrísk.
Spennan er fljót að aukast í viðtalinu, en þegar Flaa spyr leikkonurnar um klæðnað í myndinni bregst Lively við spurningunni með því að snúa sér frá blaðamanninum og ávarpa Parker, en þær gagnrýna spurninguna og velta því fyrir sér upphátt hvort karlkyns leikarar yrðu spurðir sömu spurningar. Lively heldur svo áfram að snúa sér frá Flaa nánast allt viðtalið og hagar sér líkt og hún sé í einkasamtali við Parker.
Nú hafa verið grafin upp enn fleiri myndbönd, viðtöl og uppákomur með Lively þar sem hún er gagnrýnd fyrir framkomu sína. Sumir líkja ástandinu við umræðuna sem hefur verið um söngkonuna Jennifer Lopez, en hún hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarna mánuði eftir að sögur um slæma framkomu fóru á flug.
Þó nokkrir hafa komið Lively til varnar og lýst yfir áhyggjum yfir því að Internetið hafi snúist gegn Lively, en í einni færslu sem birtist á X, áður Twitter, eru viðbrögð á samfélagsmiðlum gagnrýnd og sögð vera of hörð. „Það er eins og Internetið þurfi að finna nýtt skotmark fyrir hatur á nokkurra mánaða fresti, og það beinist oft að konum.“
Þá hefur ásökunum einnig verið vísað á bug, en Page Six greindi til að mynda frá því að Lively hafi sagt að Baldoni hafi látið sér líða óþægilega á meðan á tökum stóð. Þá sagði TMZ frá því að Lively hafi fundist Baldoni fitusmána sig, en hann glímir við bakvandamál og er sagður hafa spurt Lively um þyngd hennar fyrir atriði þar sem hann þurfti að lyfta henni upp.