Óttaðist stöðugt að vera að missa af einhverju

Greta Salóme Stefánsdóttir er gestur Sölva Tryggvasonar.
Greta Salóme Stefánsdóttir er gestur Sölva Tryggvasonar. Mbl.is/Mynd aðsend

Tónlistarkonan Greta Salóme Stefánsdóttir segist hafa þjáðst af ótta við að vera að missa af einhverju stóran hluta lífs síns. Greta, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að líf hennar hafi gjörbreyst í alla staði við að verða móðir og hún upplifi áður óþekkt jafnvægi. 

„Ég myndi segja að ég hafi þjáðst af óttanum við að vera að missa af einhverju á nánast öllum sviðum lífs míns. Það var eitthvað innbyggt eirðarleysi sem var alltaf að elta mig. En ég hef aldrei upplifað þetta jafnlítið og núna síðustu árin. Það er komin einhver innri ró og þessi lífsförunautur minn að þjást af „FOMO“ (fear of missing out) hefur eiginlega bara yfirgefið mig. Nú finnst mér ekkert betra en að hafa ekkert á dagskránni og vera bara heima með fólkinu mínu og njóta þess að vera í stað og stund,”  segir Greta, sem segir að stór hluti af ástæðunni sé líklega það að hafa orðið móðir og stofnað fjölskyldu. Það hafi breytt henni á allan hátt:

„En ég held að Covid tímabilið hafi líka haft jákvæð áhrif á mig. Það tímabil togaði mig niður á jörðina. Ekki bara var ég ekki að koma fram eða túra, heldur var enginn annar að gera það heldur. Þá fann maður svo innilega að maður var ekki að missa af neinu. Það varð einhver jarðtenging á þessum tíma sem var byrjunin á því ferli fyrir mig að æfa mig í að njóta þess að vera í núinu og átta mig fyrir alvöru á því að ég væri ekki að missa af neinu.”

Með ælu á öxlunum

Í þættinum ræða Sölvi og Greta líka um þátt félagsmiðla og síma og hvernig sá samanburður sem óhjákvæmilega verður til geti haft neikvæð áhrif á fólk:

„Við megum ekki gleyma því að við erum mötuð af hápunktum lífs annarra allan daginn. Venjulegur dagur í lífi móður til dæmis. Þú sérð mynd eða myndband af því þegar hún tekur barnið upp og kyssir það og barnið er rólegt og er klætt í fínu fötin sín. En raunveruleikinn er meira að þú ert að skipta á bleyjum allan daginn og ert með ælu á þér og hefur ekki tíma til að hafa hreint eða gera þig sæta. En við sjáum bara pínulítið augnablik sem er hannað fyrir sjónræna ánægju fyrir aðra og svo erum við mötuð af þessu allan daginn og berum það saman við okkar líf. Við megum ekki gleyma því að þetta er ekki endilega raunveruleikinn. Unglingsstelpur til dæmis eru margar að fara í gegnum mikinn kvíða út af þessu. En þó að maður hafi áhyggjur af þessari þróun er ég samt bjartsýn. Mér finnst meiri meðvitund um þetta núna en áður og ég held að það sé orðin til bylgja hjá ungu fólki sem er ekkert sérstaklega spennt fyrir samfélagsmiðlum. Ég trúi því að við munum fara í rétta átt þegar kemur að stafrænu heilbrigði. Það er mjög margt jákvætt að gerast hjá ungu kynslóðinni sem við heyrum ekkert endilega um í fréttum á hverjum degi.”

Sturluð fullkomnunarárátta

Greta segist alla tíð hafa verið með mikla fullkomnunaráráttu og sett miklar kröfur á sjálfa sig. Hún segir að áður en hún hafi orðið móðir hafi hún ekki verið með mörg tæki og tól til að kúpla sig burt frá markmiðum og vinnu, en það hafi breyst:

„Ég var eiginlega ekki með nein tæki og tól til að kúpla mig út önnur en bara hreyfingu, sem varð þá líka aðeins að vinnu, af því að það var partur af ímynd og ég var að taka upp æfingarnar og fleira. Þannig að þó að hreyfing hafi alltaf gert mér gott, þá var líka ákveðin pressa sem ég setti á mig þar. Þessi markmiðasækni var orðin að fíkn hjá mér. Það breytti bara öllu hjá mér þegar ég eignaðist barn. Þegar ég varð mamma varð það sem ég óttaðist mest að því sem hefur gert mér kleyft að lifa lífinu í miklu meiri sátt við sjálfa mig. Það að verða foreldri hefur tengt mig bæði sjálfri mér, heimilinu mínu, manninum mínum og fjölskyldunni. Ofan á það er ég líka miklu tengdari núinu. Það er svo magnað að það sem ég hélt að yrði hindrun í að ná markmiðum hefur orðið mín mesta hvatning. Ég vildi stundum óska þess að ég gæti farið 10 ár aftur í tímann og átt samtal við sjálfa mig þá til að útskýra hvað ég var að sjá vitlaust. Það er magnað að það sem maður óttaðist mest hafi orðið að því sem var best fyrir mann. Það hefur stækkað tilveruna á allan hátt að verða móðir. Það er svo frábært að fá að setja sjálfa sig til hliðar og setja alla athyglina á þetta litla líf.”

Hægt er að horfa á viðtalið hér fyrir neðan: 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar