Leikárið mun hreyfa við áhorfendum

„Við förum inn í nýtt leikár að springa af spenningi …
„Við förum inn í nýtt leikár að springa af spenningi enda margar frábærar sýningar á leiðinni,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Eyþór

„Við förum inn í nýtt leikár að springa af spenningi enda margar frábærar sýningar á leiðinni. Síðasta leikár var einstakt, sýningarnar hrifu áhorfendur og aðsókn í vor var sú mesta í manna minnum. Það litar kannski að einhverju leyti þetta leikár að það eru óvenjumargar sýningar sem hafa notið mikilla vinsælda sem halda áfram,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri inntur eftir komandi leikári.

Segir hann leikárið fjölbreytt en megináhersluna vera á sögur um fjölskylduna og lífið á Íslandi. „Þó að fókusinn í vetur sé gjarnan á heimilið og kastljósinu sé beint að samböndum, hjónaböndum, foreldrum og börnum, þá endurspeglar viðfangsefnið heiminn, heimsmálin, stríð, frið og allt þar á milli. Ég held að þetta leikár sé frekar aðgengilegt og nálægt áhorfendum á Íslandi í dag. Það er heilmikið af gamni og skemmtilegheitum en auðvitað drama líka sem hreyfir við okkur á tilfinningalegum nótum.“

Fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu verður í september þegar gamanleikritið Eltum veðrið, sem bæði er leikstýrt og samið af leikhópnum sjálfum, verður frumsýnt. „Hér er á ferð ótrúlega fyndið og skemmtilegt gamanverk sem endurspeglar íslenska þjóðarsál. Við höfum á tilfinningunni að þetta muni hitta áhorfendur í hjartastað en við höfum velst um af hlátri á tímabilinu,“ segir hann og bætir við að fremstu gamanleikarar þjóðarinnar starfi við leikhúsið og því hafi verið tilvalið að fá þá til að semja verkið.

„Margir þeirra eru skáld að auki og hafa skrifað sjónvarpsseríur, leikrit, áramótaskaup, Spaugstofuna og fleira. Upp kom þessi frábæra hugmynd hjá þeim að fylgja eftir vinahópi sem hittist einu sinni á ári í útilegu og úr er að verða ótrúlega skemmtileg og fyndin sýning, mjög íslensk og neyðarlega kunnugleg. Ég skal hundur heita ef þakið verður ekki að rifna af húsinu af hlátrasköllum hérna fram eftir vetri.“

Tekið á brýnu málefni

Framtíðardraumar, hindranir, barátta og sigrar eru meðal þess sem haft er að leiðarljósi í Taktu flugið, beibí!, glænýju verki eftir Kolbrúnu Dögg Kristjánsdóttur, sem frumsýnt verður í Kassanum í september en um er að ræða fyrsta verk höfundar sem ratar á svið í atvinnuleikhúsi.

„Verkið er sjálfsævisögulegt þar sem hún fjallar um æsku sína, fjölskyldu og leiðina til þess staðar sem hún er á í dag. Þetta verk er átakanlegt á margan hátt þó það sé fullt af kómík. Ég les þetta verk sem hetjusögu ungrar stúlku sem vann skólahlaupið þegar hún var lítil, tekst á við það að neyðast til að hætta að hlaupa en heldur ótrauð áfram,“ segir Magnús Geir. Leikstjórn og leikmynd er í höndum Ilmar Stefánsdóttur en verkið gerist á Íslandi og spannar um fjörutíu ára tímabil. „Þarna er tekið á mjög brýnu málefni sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár um hvernig samfélagi við viljum búa í sem aðgreinir ekki heldur býður öllum upp á sömu tækifæri og þátttöku.“

Eins og þekkt er hefur Magnús Geir verið endurráðinn sem …
Eins og þekkt er hefur Magnús Geir verið endurráðinn sem þjóðleikhússtjóri til næstu sex ára eða allt til ársins 2030. mbl.is/Eyþór

Jólasýningin verður venju samkvæmt frumsýnd á annan í jólum á Stóra sviðinu. Í ár er það verkið Yerma eftir Simon Stone, í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar, sem varð fyrir valinu. „Þetta er ótrúlega vel skrifað verk, nútímaverk og nútímasaga. Þetta er byggt á samnefndu verki Lorca, frá árinu 1934, og var frumsýnt í London fyrir um sex árum. Hér er fókusað á samskipti í nánum samböndum og líf nútímafólks.

Löngunin eftir að eignast barn verður að þrá, þráin að þráhyggju og þetta fer að snúast um það hvernig kona bregst við þegar lífið verður ekki við hennar heitustu bón.“ Segir Magnús Geir um að ræða hratt og þétt verk sem minni um margt á Mayenburg-þríleikinn; Ellen B., Ex og Ekki málið sem Þjóðleikhúsið sýndi á síðasta leikári. „Þetta er verk sem heldur manni á sætisbrúninni allan tímann og mun örugglega hreyfa við íslenskum áhorfendum eins og það hefur hreyft við öllum öðrum sem séð hafa verkið.“

Í lok janúar verður leikritið Heim,eftir Hrafnhildi Hagalín, frumsýnt í Kassanum og er því um að ræða fyrstu frumsýninguna á nýju ári. „Verkin Yerma og Heim taka bæði á málefnum fjölskyldunnar en með gjörólíkum hætti. Það er mjög ólíkur stíll á þessum verkum þó fjölskyldan sé í forgrunni,“ segir Magnús Geir.

„Hrafnhildur Hagalín er eitt af okkar fremstu leikskáldum og hefur skrifað frábær verk í gegnum tíðina. Síðustu ár hefur hún verið í leiðtogahlutverki sem dramatúrg Þjóðleikhússins en fer nú á ný í hlutverk leikskáldsins og við erum svo heppin að fá að frumsýna þetta einstaka verk sem talar svo sterkt til okkar á Íslandi í dag.“

Sjálfur sér Magnús Geir um leikstjórn verksins en um er að ræða hans fyrsta leikstjórnarverkefni í Þjóðleikhúsinu. „Ég hlakka mikið til að leikstýra á ný eins og ég gerði reglulega í stóli leikhússtjóra, bæði í Borgarleikhúsinu og í Leikfélagi Akureyrar,“ segir hann og nefnir í kjölfarið að hann hafi þó sett öll áform um leikstjórn á ís meðan á heimsfaraldrinum stóð.

„Verkið gerist á einu kvöldi á heimili þar sem fortíðin bankar upp á og alls konar óvæntir snúningar eiga sér stað. Þetta er feikilega vel skrifað og fallegt verk en á sama tíma mjög spennandi og ótrúlega fyndið. Þannig að þetta er fjölskyldudrama eins og það gerist best og mun klárlega hreyfa við okkur.“

Glænýr íslenskur söngleikur

Í febrúar er komið að frumsýningu á Stóra sviðinu á glænýjum íslenskum söngleik, Stormi, eftir þær Unni Ösp Stefánsdóttur og Unu Torfadóttur. Hér er á ferðinni verk sem talar til ólíkra kynslóða um fyrstu stóru tímamót lífsins en í fyrri verkum Unnar Aspar í Þjóðleikhúsinu, verðlaunaverkunum Vertu úlfur og Saknaðarilmi, var sjónum einmitt beint að mikilvægum málefnum í samtímanum.

„Það er náttúrulega alltaf frétt þegar leikhúsin ráðast í risastóran söngleik, hvort sem hann heitir Frost, Eitruð lítil pilla eða eitthvað annað, en það er enn sjaldgæfara að um sé að ræða nýjan íslenskan söngleik, hvað þá eftir kornunga konu. Þetta er ný saga með nýrri tónlist eftir snillinginn Unu Torfadóttur sem hefur átt alveg ótrúlega vinsæl lög hér á landi á síðustu árum,“ segir Magnús Geir og bendir á að textarnir við lög Unu séu í senn djúpir og heiðarlegir.

Leikstjórn er í höndum Unnar Aspar en í sýningunni hljóma þekkt lög Unu í bland við ný. „Unnur Ösp, sem hefur gert ótrúlega hluti hér á síðustu árum, kom upp með hugmynd að mjög flottri sögu sem byggist svolítið á inntaki nokkurra texta Unu. Unnur skrifar söguna og Una leggur til nokkur þekkt lög sem passa inn í sýninguna og skrifar svo fjölda nýrra laga líka.“

Segir Magnús Geir að um sé að ræða sögu um ungt fólk á Íslandi í dag en leikhúsið ræður inn fjölda ungra listamanna til að taka þátt í sýningunni. „Auk Unu bætast nýir og ungir leikarar við okkar leikhóp og leika þessa sögu. Þarna er fókusað á fyrstu stóru tímamót lífsins, þegar við erum að taka fyrstu stóru skrefin út í lífið sem fullorðnir einstaklingar.

Náminu er lokið, við erum að finna okkur lífsförunaut, ákveða hvað við ætlum að verða, hvort við ætlum að eignast börn og þar fram eftir götunum en þetta er tímabil sem einkennist oft af svakalegu róti, stórum tilfinningum, mikilli ást og ástríðu en einnig stundum af vonbrigðum og átökum.“

Tekur hann fram að söngleikurinn endurspegli allt þetta litróf og því sé um að ræða mikinn tilfinningarússíbana. „Þetta er mjög nútímalegt verk sem allir tengja við, ungir og þeir sem eldri eru, og tónlist sem höfðar til flestra enda er Una Torfadóttir vinsæl hjá öllum aldurshópum.“

Viðtalið í heild sinni má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert þar sem þú átt að vera. Haltu ótrauður áfram, þú finnur lykilinn að hamingjunni á ólíklegustu stöðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kolbrún Valbergsdóttir