Bandaríski leikarinn Matthew Perry lýsti því í smáatriðum í bók sinni, Friends, Lovers and the Big Terrible Thing, hvernig tilfinning það væri þegar ketamín, svæfingar- og deyfilyf, ferðaðist um æðar líkamans.
Í bókinni, sem kom út í nóvember 2022, fjallaði hann ítarlega um fíknisjúkdóma sína, hina stöðugu leit að ástinni og árin á tökusetti Friends.
„Það er eins og að vera sleginn í höfuðið með risastórri gleðiskóflu,” skrifaði Perry meðal annars um lyfið.
„Mér finnst ég geta andað um leið og lyfinu er sprautað inn í húðina. Ég er ketamín-aðdáandi. Lyfið ætti eiginlega að vera kallað „Matty“, skrifaði leikarinn einnig.
Perry, þekktastur fyrir hlutverk sitt sem Chandler Bing, var 54 ára þegar hann lést í október á síðasta ári. Lík hans fannst í heitum potti á heimili hans í Los Angeles.
Leikarinn var í ketamínmeðferð við kvíða og þunglyndi er hann lést.
Kenneth Iwasama, fyrrverandi aðstoðarmaður Perry, viðurkenndi nýverið að hafa sprautað leikarann með banvænum skammti af ketamíni daginn sem hann dó, að beiðni Perry.
Iwasama er á meðal þeirra fimm sem voru handteknir í síðustu viku í tengslum við andlát leikarans.