Tónlistarmaðurinn Aron Kristinn Jónasson sendi frá sér myndband í kjölfar stunguárásarinnar á Skúlagötu á laugardagskvöld. Í myndbandinu, sem birtist á TikTok-reikningi tónlistarmannsins, sendi hann ungmennum sterk skilaboð.
Þrjú ungmenni urðu fyrir stunguárás á laugardagskvöld og hefur sextán ára piltur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 30. ágúst. Aron Kristinn, sem er liðsmaður hljómsveitarinnar ClubDub ásamt Brynjari Barkarsyni, segir að ungmenni sem ganga með hnífa á sér ættu að skammast sín.
„Ef þú ert lítill strákur og ert eitthvað að hugsa: „Hmm ætti ég að taka hnífinn með mér í bæinn?“ Gaur, slepptu því. Það er enginn að fara að stinga þig, þú ert ekki að fara stinga neinn og ef þú ert með hníf á þér þá ættir þú að skammast þín, þú ert aumingi og guð blessi þig,“ segir Aron Kristinn í myndbandinu.
Ljóst er að hugur Arons Kristins er með ungu stúlkunni sem er enn í lífshættu eftir árásina. „Guð blessi þessa ungu stelpu sem „by the way“ dó næstum því í Reykjavík,“ segir hann og leggur áherslu á að Reykjavík sé ein öruggasta borg í heimi. Hann biður ungmenni um að hætta að ganga með hnífa og beita ofbeldi.
Tónlistamaðurinn er með stóran hóp ungra fylgjenda á samfélagsmiðlum sínum þar sem hann hefur áður tjáð sig opinberlega um þung mál í samfélaginu. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir myndbandið.
@aronkristinn47 hræðilegt ástand #fyrirþig #íslenskt ♬ original sound - aron kristinn