„Fyrir mér er tónlistin aldrei bara analítísk eða eins og reikningsdæmi. Ég fylgi alltaf tilfinningunni,“ segir tónskáldið Herdís Stefánsdóttir í samtali við Morgunblaðið. Hún samdi nýverið tónlistina fyrir stórmynd bandaríska leikstjórans M. Night Shyamalan Trap (2024), sem sýnd er í bíóhúsum landsins um þessar mundir.
Shyamalan er þekktastur fyrir gerð hryllings- og fantasíumynda og hefur meðal annars skrifað og leikstýrt myndum á borð við The Sixth Sense, Signs, The Village og Split. Þetta er í annað sinn sem Herdís starfar með Shyamalan, en áður samdi hún tónlistina fyrir kvikmynd hans Knock at the Cabin (2023), sem hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í flokki kvikmynda- og leikhústónlistar fyrir. Þá hefur hún einnig samið tónlist fyrir önnur stór verkefni á borð við kvikmyndina The Sun Is Also a Star (2019) og þáttaseríurnar Y: The Last Man (2021) og The Essex Serpent (2022). Fyrir þær tvær síðastnefndu hlaut Herdís einnig Íslensku tónlistarverðlaunin.
Spurð út í aðdraganda verkefnisins svarar hún að Shyamalan hafi haft samband við sig nokkrum mánuðum eftir frumsýningu Knock at the Cabin og beðið hana um að vera með í gerð Trap. Samstarfið í kringum Knock at the Cabin hafi enda gengið vel og símtalið því ekki komið stórlega á óvart. „En maður veit samt aldrei, stundum hringja leikstjórar aftur og stundum ekki.
Í þetta skipti fékk ég að koma mun fyrr inn í allt ferlið og flaug til dæmis út til Toronto þar sem verið var að mynda og var með á settinu. Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór á kvikmyndasett og það var ótrúlega gaman en líka geðveikt leiðinlegt, af því að nú sé ég alltaf strax hvenær myndir eru teknar upp á setti og hvenær við erum til dæmis í gervieldhúsi. Það er búið að sprengja búbbluna og nú veit ég að þetta er ekki alvöru,“ segir hún hlæjandi. „Nei, ég segi svona. Þetta var mjög gaman og það var áhugavert að fá að fylgjast með M. Night leikstýra og sjá leikara á borð við Josh Hartnett, sem hefur verið í þessum bransa í meira en 20 ár, fara í karakter. Það var alveg frekar kúl.“
Trap eða Gildra er sálfræðihrollvekja og segir frá raðmorðingjanum Cooper (Josh Hartnett), sem fer með unglingsdóttur sína Riley (Ariel Donoghue) á tónleika poppstjörnunnar Lady Raven (Saleka Shyamalan). Fljótlega kemur svo í ljós að tónleikarnir eru gildra fyrir Cooper, eða Slátrarann eins og hann er almennt kallaður, sem bandaríska leynilögreglan FBI hefur leitt hann í.
„M. Night notar tónlistina að miklu leyti sem hluti af narratívunni, til þess að segja söguna,“ segir Herdís spurð út í sköpunarferlið. „Við fórum í marga hringi með það hvernig við vildum hafa myndina og hver baksaga aðalsögupersónanna [Slátrarans, söngkonunnar Lady Raven og leynilögreglukonunnar Dr. Grant], ætti að vera. Svo fórum við af einhverri ástæðu að tala um það hver ofurkraftur hverrar og einnar væri og ákváðum að lokum að semja eins konar ofurhetjuþema fyrir þær.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 29. ágúst.