Þýska kvikmyndaleikkonan og fyrirsætan Nastassja Kinski er heiðursgestur á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík í ár og hreppir sömuleiðis heiðursviðurkenningu RIFF sem hefst 26. september. Svo segir í tilkynningu frá hátíðinni.
„Kinski á að baki langan og glæsilegan feril á hvíta tjaldinu, en hún hefur allt frá 1978 leikið í yfir sextíu bíómyndum, þar á meðal í leikstjórn margra kunnustu kvikmyndagerðarmanna sögunnar á borð við David Lynch, Francis Ford Coppola, Paul Schrader, Roman Polanski, Wim Wenders og Wolfgang Petersen,“ segir í tilkynningunni.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Kinski kemur til Íslands og hér mun hún dvelja í nokkra daga og vera meðal annars með meistaraspjall við gesti þar sem hún fer yfir feril sinn og frama.
Kinski á langan feril að baki en hún sló í gegn aðeins 17 ára gömul fyrir hlutverk sitt í kvikmynd Ítalans Alberto Lattuada, Stay as you are.
„Aðeins ári seinna, 1979, hreif hún kvikmyndaunnendur upp úr skónum í hlutverki sínu í kynngimagnaðri kvikmynd Polanski, Tess, og hlaut fyrir vikið tilnefningu til Gullna hnattarins fyrir túlkun sína á ungri konu sem verður fórnarlamb eigin fegurðar. Myndin hlaut þrenn Óskarsverðlaun, meðal annars sem besta myndin,“ segir í tilkynningunni.
Af öðrum myndum sem Kinski hefur leikið í má nefna One from the Heart eftir Coppola, Cat People í leikstjórn Paul Schrader og Paris, Texas í höndum Wim Wenders en tvær síðastnefndu myndirnar verða sýndar á RIFF í ár.