Extreme Chill í 15. sinn

Allessandro Cortini.
Allessandro Cortini.

Tónlistarhátíðin Extreme Chill er nú haldin í fimmtánda sinn og að vanda er Pan Thorarensen við stjórnvölinn. Upphaf hátíðarinnar og heiti má rekja aftur til ársins 2009 þegar Stereo Hypnosis, sem Pan skipar með föður sínum Óskari Thorarensen, heldu tónleika á Hellissandi á Snæfellsnesi. Og í raun enn lengra aftur í tíma, eins og Pan rifjar upp. „Við feðgarnir vorum með svona raftónlistarkvöld á Kaffibarnum, Hemma Valda og 22 í kringum 2006 eða ‘7. Við vorum að gera mixdiska, rafmixdiska af geisladiskum sem við mixuðum feðgarnir þar sem við vorum að kynna raftónlist eftir vini okkar og fleiri. Við nefndum mixdiska-seríuna Extreme Chill,“ segir Pan frá. Ef snara ætti því heiti yfir á íslensku væri það „yfirgengileg afslöppun“ eða eitthvað í þá veru og því skemmtileg mótsögn í heitinu. Afslöppun og öfgar í senn.
„Svo voru haldin kvöld þegar diskarnir komu út og við vorum að DJ-a, að spila plötuna og vorum með einhverja gesti, íslenska raftónlistarmenn og kölluðum kvöldin Extreme Chill. Þessi kvöld voru tvisvar í mánuði í tvö, þrjú ár áður en hátíðin byrjaði. Það er ekkert margir sem vita það,“ segir Pan. Árið 2009 fóru feðgarnir á Hellissand og tóku upp aðra breiðskifu sína, Hypnogogiu, og ákváðu að halda útgáfutónleika sína þar ári síðar. Þótti feðgunum þeir tónleikar heppnast svo vel að þeir endurtóku leikinn og bættu í með því að stofna til hátíðar á Hellissandi. Urðu hvorki þeir né tónleikagestir fyrir ofkælingu, sem betur fer.

Pan Thorarensen.
Pan Thorarensen.


Spenntur fyrir Cortini


Það stendur mikið til á 15. hátíð Extreme Chill sem fram fer á nokkrum stöðum í miðbæ Reykjavíkur, eins og sjá má á ágætum vef hátíðarinnar: extremechill.org. Hátíðin er lengri en þær fyrri, stendur að þessu sinni yfir í heila viku. Heila afmælisviku, eins og Pan bendir á. „Annars hafa þetta verið fimmtudagur til sunnudags en nú bætast við þrír dagar í viðbót,“ segir Pan. Þó dagarnir séu fleiri séu atriðin það ekki heldur teygt meira úr dagskránni. Þannig fái hvert atriði, hljómsveit eða flytjandi, meira pláss, svo að segja. „Það er bara veisla framundan í þessum geira,“ segir Pan um hátíðahöldin.
-En fyrir þá sem eru alveg grænir og vita ekkert um þessa tónlistarmenn, er best að vaða bara blint í sjóinn?
„Já, þetta er svolítið þannig hátíð. Við erum alltaf með nýja tónleikagesti sem slysast til að kaupa sér miða og eru bara algjörlega „hooked“. Það er það sem er skemmtilegt en það er náttúrlega eitthvað þarna sem fólk ætti að kannast við,“ svarar Pan og nefnir sem dæmi fiðluleikarann Hoshiko Yamane úr hljómsveitinni Tangerine Dream. „Þetta er fólk sem hefur verið að vinna með stórum nöfnum,“ útskýrir Pan og nefnir fleiri, m.a. gítarleikarann Eraldo Bernocci.
Pan segist sjálfur einna spenntastur fyrir ítalska gítarleikaranum Allessandro Cortini. Það hafi tekið þónokkurn tíma að ná honum, fá hann til að halda tónleika á Íslandi. „Hann er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hann er líka hljóðfærasmiður, er að gera mjög flottar „syntha“-græjur, „modular synths“ sem ég nota sjálfur. Hann er mikill brautryðjandi og var líka í hljómsveitinni Nine Inch Nails,“ segir Pan. Annar áhugaverður tónlistarmaður er Fujita, Japani sem Pan segir á mjög sérstakan og vaxandi nafn í þessum geira tónlistar. „Hann er með hljóðfæri sem hann býr sjálfur til í sveitinni heima hjá sér í Japan, alls konar skrítnar flautur og „air pumps“. Hann er að koma með þetta allt með sér,“ segir Pan kiminn. Fujita sé áhugaverður líkt og bandaríski hörpuleikarinn Mary Lattimore. „Hún er alveg frábær,“ segir Pan um Lattimore sem hafi m.a. unnið með Sigur Rós og Jónsa.
Einnig má nefna Christopher Chaplin, yngsta son Charles Chaplin heitins en hann hefur áður komið fram á hátíðinni og mun nú koma fram með Stereo Hypnosis og Pöddunni. Paddan er nýtt íslenskt verkefni, að sögn Pans, með þeim Sigtryggi Baldurssyni á trommum og Birgi Mogensen á bassa. Pan segir Pödduna rafskotna og tónlistina í anda súrkálsrokks án söngs. Og þannig mætti áfram telja upp kræsingar á hlaðborði Extreme Chill árið 2024.

Meiri tími fyrir hvert atriði

Atriði hátíðarinnar eru 23 talsins og þá bæði hljómsveitir og sólólistamenn á ferð. Pan segir fjölda atriða á fyrri hátíðum farið í 40 og jafnvel 50 og það hafi honum þótt fullmikið. „Ég vil frekar gefa fólki meiri tíma í að spila og vanda þetta betur. Þetta verður svolítið kaotískt þegar það eru margir og ég er ekkert voðalega hrifinn af því,“ segir Pan. Hann fari mikið til útlanda að kynna sér tónlistarmenn og hátíðir og lendi stundum á hátíðum sem séu mun stærri en Extreme Chill. „Ég bara missi fókusinn strax, verð bara þreyttur,“ segir Pan um slíkar hátíðir en bætir við að allt fari þetta auðvitað eftir smekk hvers og eins.
Pan segir að áhugi fyrir hátíðinni hafi vaxið mikið erlendis og sérstaklega með auknu samstarfi við erlendar hátíðir. „Við eigum núna í miklu samstarfi við hátíðir á Norðurlöndunum, í Evrópu og Þýskalandi. Við hittumst á hverju ári, heimsækjum hátíðirnar og erum að funda. Þetta samstarf hefur opnað fleiri dyr og hefur hjálpað mikið,“ segir Pan.
Pan er að lokum spurður út í kynjahlutföll þegar kemur að flytjendum. Fleiri karlar eru í þeirra röðum en Pan segir hlutföllin misjöfn eftir árum. „Síðustu ár hafa verið fleiri konur að spila en karlar en stundum raðast þetta bara upp þannig. Við þurfum ekkert að sanna okkur neitt með það lengur, við tókum þetta í gegn fyrir nokkrum árum og í fyrra var þetta alveg ótrúlegt, eiginlega bara konur,“ segir Pan.
Miðasala fer fram á midix.is og má finna allar upplýsingar um hátíðina og tónlistarmenn á vef hennar, extremechill.org. Einnig má geta þess að miðsala fer líka fram í versluninni Space Oddissey sem er nú til húsa að Bergstaðastræti 4 í miðbæ Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekkert koma þér úr jafnvægi því flestir hlutir eru ekki þess virði. Leitaðu leiða til að lifa rólegra lífi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Unnur Lilja Aradóttir
4
Colleen Hoover
5
Snæbjörn Arngrímsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekkert koma þér úr jafnvægi því flestir hlutir eru ekki þess virði. Leitaðu leiða til að lifa rólegra lífi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Unnur Lilja Aradóttir
4
Colleen Hoover
5
Snæbjörn Arngrímsson