„Án efa mest notaða svið landsins“

Snæbjörn Brynjarsson, nýráðinn leikhússtjóra Tjarnarbíós, segist horfa á leiklistina í …
Snæbjörn Brynjarsson, nýráðinn leikhússtjóra Tjarnarbíós, segist horfa á leiklistina í alþjóðlegu samhengi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Tjarnarbíó er aðalmiðstöð sjálfstæðu leikhópanna. Við erum ekki með fastan leikhóp eins og hin stóru leikhúsin heldur koma hinir og þessir hópar inn. Í fyrra voru 300 manns sem komu fram á sviðinu hjá okkur, sem er töluverður fjöldi sé litið til þess að við erum bara með eitt svið og svo annað lítið í forsalnum. Hér er því mikil rótering og margar ólíkar sýningar en þetta er án efa mest notaða svið landsins,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, nýráðinn leikhússtjóri Tjarnarbíós, um komandi leikár.

„Ég á mér þann draum að sjá einhvers konar leiklistarhátíð spretta upp í Reykjavík sem bæði gæti orðið ákveðinn stökkpallur fyrir íslenska leikhópa út á við og vettvangur fyrir okkur til að sjá mörg erlend verk. Ég held að Tjarnarbíó henti vel sem hjartað í þannig hátíð en það er auðvitað mjög erfitt þar sem við erum varla með fjármagnið til að halda hjólunum gangandi,“ segir hann og bætir því við að sjálfur eigi hann að baki feril sem sviðshöfundur í Frakklandi þar sem slíkar hátíðir hafi verið algengar.

„Ég lærði hér heima á sviðshöfundabraut og nokkrum árum seinna bauðst mér að flytja út og sýna með frönskum leikhópi á nokkrum alþjóðlegum listahátíðum. Ég naut þeirra forréttinda að túra með þeim til Bandaríkjanna, Rússlands, Írans og til flestra Evrópulandanna sem var mér gríðarlegur innblástur. Ég hef alltaf horft á leiklistina eftir það í alþjóðlegu samhengi. Þannig að mig langar til þess að Ísland eigi í meira samtali við hin Evrópulöndin og draumurinn væri að sjá Tjarnarbíó leika stórt hlutverk í því. Mikilvægasta verkefnið sem við höfum er þó fyrst og fremst að gefa íslenskum leikhópum vettvang til að koma með ný verk og veita þeim frelsi til að skapa hluti sem verða ekki til hjá hinum leikhúsunum.“

Fjölbreytt úrval sýninga

Fyrsta frumsýning leikársins fer fram í kvöld þegar danssýningin Líkaminn er skál verður frumsýnd. „Um er að ræða spennandi dansverk með leir. Sýningu á mörkum myndlistar og danslistar eftir leikhópinn 10 fingur og Matteo Fargion. Leikhópurinn fagnar einmitt 30 ára afmæli sínu í ár sem er fáheyrt í sjálfstæðu senunni,“ segir Snæbjörn en flytjendur verksins eru þær Helga Arnalds og Valgerður Rúnarsdóttir.

Önnur dansverk á leikárinu eru; Eitthvað um skýin eftir Ólöfu Ingólfsdóttur, flytjanda verksins, sem frumsýnt verður í nóvember og Soft Shell eftir Katrínu Gunnarsdóttur, í flutningi Ásgeirs Helga og Sögu Kjerulf Sigurðardóttur.

„Ólöf er einn af okkar reyndustu danshöfundum en hún frumsýnir verkið í Montreal á næstu dögum og sýnir það svo hér í Tjarnarbíói. Þarna mætast mismunandi tímabil, bæði samtímadans og barokktónlist en í verkinu Soft Shell kanna dansarar einkennilega aðlaðandi undraheim með öllum skilningarvitunum.“

Auk þess mun drag-sýningin House of Heart snúa aftur í september en sýningin hlaut verðlaun á Reykjavík Fringe fyrir besta leikhópinn og eftirtektarverðustu sýninguna.

Að sögn Snæbjörns er kjarna íslensks uppistands að finna í …
Að sögn Snæbjörns er kjarna íslensks uppistands að finna í Tjarnarbíói en boðið er upp á slíkar sýningar í húsinu nánast allan ársins hring. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn 15. október er komið að frumsýningu söngleiksins Við erum hér með sviðslistakórnum Viðlagi. „Ég er mjög spenntur fyrir þessu en það stendur stór hópur að baki sýningunni og margir höfundar. Blásið verður til brúðkaupsveislu hér í Tjarnarbíói og boðið upp á þekkt lög með nýjum íslenskum textum. Ég held því að allir sem hafa unun af brúðkaupum muni hafa gaman af þessu verki,“ segir hann og nefnir í framhaldinu að í mars verði glæný ópera Friðriks Margrétar-Guðmundssonar frumsýnd. „Hún ber heitið Brím og er samin við líbrettó Adolfs Smára Unnarssonar, sem einnig er höfundur leikritsins Undir en sýningar á því hefjast hjá okkur 3. október.“

Barnasýningar leikársins verða tvær en hinn 15. september verður sýningin Nýjustu töfrar og vísindi með Lalla töframanni frumsýnd. „Þetta er bæði fyndin og fræðandi sýning fyrir alla fjölskylduna, full af skemmtilegum töfrum í bland við vísindatilraunir, grín, gleði og hamingju,“ segir Snæbjörn.

„Í janúar mun svo Raddbandið frumsýna barnasöngleikinn Hver vill vera prinsessa? en leikstjórn er í höndum Söru Martí, fráfarandi leikhússtjóra Tjarnarbíós. Við erum því í rauninni með allt inni í leikárinu; óperu, söngleik, fullt af uppistandi og mörg ólík dansverk. Síðan verður Reykjavík Dance Festival að sjálfsögðu á sínum stað í nóvember, að ógleymdri gestasýningunni The Declutter Show með danshópnum Nordic Beasts, sem sýnd verður í byrjun október.“

Mekka uppistandsins

Að sögn Snæbjörns er kjarna íslensks uppistands að finna í Tjarnarbíói en boðið er upp á slíkar sýningar í húsinu nánast allan ársins hring. Til að mynda steig hlaðvarpsstjórnandinn Sóley Kristjánsdóttir sín fyrstu skref í uppistandi núna í lok ágúst þegar hún bauð upp á miðaldra uppistand.

„Sóley er með hlaðvarp sem heitir Að finna taktinn: Breytingaskeiðið en þetta er hennar fyrsta uppistand. Það seldist upp á fyrstu sýninguna hennar svo við áætlum að bæta við sýningum,“ segir Snæbjörn og tekur fram að í vetur verði boðið reglulega upp á uppistand á litla sviðinu í glersalnum þar sem hópur grínista skiptist á að stíga á svið.

„Þetta er frábær stökkpallur fyrir unga uppistandara sem ekki hafa komið fram áður og líka fyrir eldri og þekktari uppistandara sem eru að vinna nýtt efni. Það verður því líf og fjör hérna í allan vetur í uppistandi, sérstaklega á sunnudögum en þá býður Stefán Ingvar Vigfússon upp á afréttara fyrir þá sem þurfa.“

Föstudaginn 6. september frumsýnir Ásgeir Ingi Gunnarsson uppistandið Ofhugsun og laugardaginn 21. september mun Jakob Birgisson frumsýna Vaxtaverki. Þá verður einnig boðið upp á uppistand á pólsku því 6. október mun einn þekktasti uppistandari Póllands, Adam Van Bendler, stíga á svið. Er þetta í fyrsta sinn sem Van Bendler heimsækir Ísland en hann á að baki yfir 2.000 sýningar.

„Síðast en ekki síst mun uppistandarinn Bergur Ebbi snúa aftur í janúar þegar hann frumsýnir glænýtt uppistand er nefnist Hagsmunir en á síðasta leikári fyllti hann húsið alls 30 sinnum,“ segir Snæbjörn.

Íslensk verk áberandi

Ný íslensk leikverk verða einnig áberandi á leikárinu. Piparfólkið verður endurfrumsýnt 26. september en leikendur eru þau Aðalbjörg Árnadóttir, Ylfa Ösp Áskelsdóttir og Hannes Óli Ágústsson en auk þeirra mætir glæný gestastjarna á sviðið í hverri sýningu.

„Áhorfendur fá að sjá nýjan leikara í hópnum á hverri sýningu en þetta er sýning með einungis 70 sætum svo hún býður upp á öðruvísi nánd,“ segir Snæbjörn til útskýringar. Lab Loki mætir einnig aftur í september með verkið … og hvað með það? en um er að ræða samsköpunarverkefni, samið og leikstýrt af Rúnari Guðbrandssyni, í flutningi Árna Péturs Guðjónssonar og Sigurðar Edgars Andersen.

„Lab Loki er búinn að vera afkastamesta tilraunastofan í sjálfstæðu senunni síðan Rúnar og Árni stofnuðu hópinn 1992 en einn gagnrýnandinn komst svo að orði að Árni geislaði af frelsi og hispursleysi í þessu verki.“ Einleikurinn Kafteinn frábær,eftir Alistair McDowall í flutningi Ævars Þórs Benediktssonar, verður síðan frumsýndur 12. febrúar. Þar verður leikstjórn í höndum Hilmis Jenssonar en um tónlistina sér Svavar Knútur. „Þetta er verk sem fjallar um karlmennskuna, föðurhlutverkið og flóknar tilfinningar en þetta er sýning sem hefur slegið í gegn víða. Ég veit að þetta er mjög krefjandi hlutverk en þarna fáum við að sjá Ævar eins og við höfum aldrei séð hann áður.“

Verðlaunaverkið Ífigenía í Ásbrúeftir Gary Owen, í flutningi Þóreyjar Birgisdóttur, verður svo frumsýnt í janúar. „Þórey sló í gegn þegar hún flutti brot úr verkinu á einleikjahátíðinni Act Alone í sumar svo það verður spennandi að sjá heildarverkið hér í Tjarnarbíói,“ segir hann.

Í maí er svo komið að kómedíunni 40.000 fet en aðstandendur verksins eru þau Birta Sól Guðbrandsdóttir, Aldís Ósk Davíðsdóttir og Benóný Arnórsson, sem einnig leikstýrir. „Þetta verk byggist á alvöru reynslusögum úr flugbransanum en ég held að í þeim geira lendi maður í alls konar hlægilegum aðstæðum.“ Eden, eftir þær Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur og Nínu Hjálmars, verður síðan sýnd á vordögum. Segir Snæbjörn um að ræða femínískt ádeiluverk en það var sýnt á Listahátíð í Reykjavík fyrr á árinu.

Viðtalið í heild má lesa á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú er rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Sögur, slúður og dramatík gera vart við sig í fjölskyldulífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú er rómantísk manneskja og í dag verður þessi eiginleiki þinn áberandi. Sögur, slúður og dramatík gera vart við sig í fjölskyldulífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Sarah Morgan
3
Jenny Colgan
4
Sofia Rutbäck Eriksson
Loka