„Þegiðu“

Liam Gallagher, söngvari Oasis, á tónleikum í Danmörku fyrir tveimur …
Liam Gallagher, söngvari Oasis, á tónleikum í Danmörku fyrir tveimur árum. AFP

Liam Gallagher, söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Oasis, gefur lítið fyrir þá gagnrýni sem hefur komið upp vegna uppnámsins sem hefur skapast vegna miðasölu á tónleika sveitarinnar á næsta ári. Hann sagði einum aðdáanda að þegja og öðrum að kaupa miða þar sem áhorfendur þurfi að krjúpa. 

Þetta kemur fram í umfjöllun á vef breska blaðsins Guardian.

Vísað er til færslu sem Gallagher hefur birt á X eftir að breska samkeppniseftirlitið greindi frá því í gær að það muni hefja rannsókn á því hvernig Ticketmaster stóð að miðasölunni, m.a. hvernig breytilegt verð hafi verið notað til að hækka miðaverðið upp úr öllu valdi sökum gríðarelgrar eftirspurnar.

 Margir hafa beðið með eftirvæntingu að Oasis myndi snúa aftur á stóra sviðið eftir að upp úr sauð á milli Gallagher-bræðranna, Noels og Liams, fyrir 15 árum. Gleðin breyttist hins vegar í pirring og reiði hjá mörgum sem kvörtuðu yfir því að miðaverðið hefði hækkað fyrirvaralaust.

Alls er um að ræða 17 tónleika sem fara fram á næsta ári. 

Miðinn hækkaði um 220 pund

Aðdáendur hafa greint frá því hvernig þeir þurftu að bíða klukkustundum saman á netinu aðeins til að komast að því að miðaverðið hefði rokið upp. Miði, sem átti upphaflega að kosta 135 pund, var að lokum kominn í 355 pund, sem samsvarar um 65.000 kr. 

„Oasis hefur snúið til baka, ekkert að þakka. Og ég heyri að VIÐHORF MARGRA ER GLATAÐ. Gott að vita að sumt breytist aldrei,“ skrifaði Liam Gallagher í færslu á X í dag. 

Svarað að hætti hússins

Einn aðdáandi var fljótur að svara færslunni og gera athugsemd við all ferlið. Hann skrifaði að hann hefði „ekki átt von að þeir [Oasis] myndu reyna að græða svona á aðdáendunum eins og þeir hafa gert.“

Gallagher var fljótur að bregðast við og skrifaði: „ÞEGIÐU“.

Annar aðdáandi sveitarinnar spurði söngvarann hvort hann ætti aukamiða. Gallagher svaraði: „Gríðarlega mikið en þeir eru mjög dýrir, 100 þúsund pund. Aðeins fyrir krjúpandi.“

Hljómsveitin hafði áður sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að hún vissi ekki að svokallað breytilegt verði hefði verið notað við miðasöluna. Sveitin setji allt skipulag og miðsölu í hendur tónleikahaldara og skipuleggjenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú lítur alltaf á björtu hliðarnar og það virkar vel. Losaðu þig við gamalt dót, þér líður svo miklu betur á eftir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Unnur Lilja Aradóttir
5
Moa Herngren
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú lítur alltaf á björtu hliðarnar og það virkar vel. Losaðu þig við gamalt dót, þér líður svo miklu betur á eftir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Jónsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Unnur Lilja Aradóttir
5
Moa Herngren