Rithöfundurinn Salman Rushdie tekur á móti alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum Halldórs Laxness í Háskólabíói í dag.
Þetta verður í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt og verður hátíðleg athöfn, sem hefst klukkan 17.30, í beinu streymi hér á mbl.is.
Beint streymi:
Alþjóðlegu bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness eru veitt annað hvert ár alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að eiga þátt í endurnýjun frásagnarlistarinnar. Þannig hljómaði einmitt rökstuðningur sænsku Akademíunnar þegar Halldór Laxness hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1955. Verðlaununum er líka ætlað að halda á lofti nafni Halldórs Laxness á alþjóðlegum vettvangi, að því er segir í tilkynningu.
Venju samkvæmt mun forsætisráðherra afhenda Rushdie verðlaunin, sem eru peningaverðlaun að upphæð 15.000 evrum með verðlaunapeningi að auki. Halla Oddný Magnúsdóttir og Halldór Guðmundsson munu svo leiða samræður við Rushdie á sviði eftir afhendinguna.
Verðlaunin voru fyrst afhent árið 2019 þegar breski rithöfundurinn Ian McEwan veitti þeim viðtöku. Tveimur árum seinna hlaut tyrkneski höfundurinn Elif Shafak verðlaunin og árið 2022 hlotnuðust þau úkraínska höfundinum Andrei Kúrkov.