Nordic Affect er að hefja vetrartónleikaröð sína í Mengi þann 17. september. „Gaman að kynnast þér“ er yfirskrift fyrstu tónleikanna og á þeim er ætlunin að athuga hvað gerist þegar tónlistarmenn sem leika á barokkhljóðfæri, víetnömsk hljóðfæri og gervigreindarhljóðfæri mætast.
„Yfirleitt erum við fjórar í Nordic Affect en í þessari tónleikaröð erum við tvær úr hópnum, ég á barokkfiðlu og Guðrún Óskarsdóttir á sembal,“ segir Halla.
Nordic Affect hefur komið sér á kortið sem framsækinn tónlistarhópur. Gagnrýnendur innanlands og utan hafa hælt hópnum í hástert, m.a. fyrir „samlegðaráhrif flytjenda“, lýst honum sem „þverfaglegu náttúruafli“ og sem „gersemi í íslensku tónlistarlífi“.
„Við erum akkúrat núna að renna inn í æfingaferlið, sem er í raun tilraunamennskan í þessu. Við erum að fara að kynnast hvert öðru í gegnum hljóðfærin okkar og sköpunina og þess vegna er yfirskriftin gaman að kynnast þér.“
Húsið í Mengi opnar klukkan 19:30 og tónleikarnir hefjast 20:00. Miðasala fer fram við hurð.
Lesa má ítarlegra viðtal við Höllu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.