Gísli Pálsson, fyrrverandi prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, skrifaði bókina Fuglinn sem gat ekki flogið. Bókin fjallar um síðustu afdrif geirfuglsins og aldauða tegundar af mannavöldum. Ensk útgáfa bókarinnar, The Last of Its Kind, hefur verið tilnefnd til hinna virtu verðlauna Royal Society Trivedi Science Book Prize.
Bók Gísla er byggð á handritum eftir bresku náttúrufræðingana Alfred Newton og John Wolley sem geymd eru á háskólabókasafninu í Cambridge. Handritin má hvorki fjarlægja né afrita og því fékk hann ljósmyndir af þessum 900 blaðsíðum sendar, gegn gjaldi, til að geta skrifað bókina.
Gísla er umhugað um að frásögn af endalokum geirfuglsins sé rétt.
Árið 1858 komu Newton og Wolley hingað til lands til að gá að geirfuglinum. Þeir ætluðu að komast út í Eldey en tókst það ekki. Á þessum tíma hafði enginn séð geirfuglinn í 14 ár, eða frá árinu 1844. Newton og Wolley tóku viðtöl við þá 12 eftirlifandi sjómenn sem verið höfðu í síðustu áhöfninni sem fór út til að veiða geirfuglinn og við þær konur sem verkuðu hann.
Wolley sá um að skrifa niður viðtölin en hann lést ári eftir komu þeirra til landsins. Newton hélt hins vegar áfram, enda sést að hann hefur párað ýmsar upplýsingar í handritin eftir á.
Í þessari ferð Bretanna var aldauðinn uppgötvaður. Gísli útskýrir hvernig Newton sýndi fram á að geirfuglinn hefði horfið fyrir tilstuðlan manna.
Gísli segir stærsta áfall geirfuglsins hafa verið á Nýfundnalandi, eyju úti fyrir ströndum Norður-Ameríku. Skammt fyrir norðaustan eyjuna veiddu Evrópubúar geirfuglinn í stórum stíl.
„Sjómenn víða að, t.a.m. frá Frakklandi og Portúgal, veiddu á gjöfulum miðum við Nýfundnaland.“ Hann bætir því við að sjómennirnir hafi þurft mat á leiðinni heim. Þá hafi verið settir plankar eða rennur út í skipin og fuglunum sópað niður í skipin. Þar voru þeir drepnir, kjötið saltað og borðað og fiðrið og beinin einnig nýtt.
„Þetta var kirkjugarður fuglsins. Stærsti stofninn var á Nýfundnalandi og honum var slátrað.“
„Íslendingar hafa löngum haft þetta samviskubit að hafa fellt síðasta fuglinn fyrir danska kaupmenn þrátt fyrir að aðalslátrunin hafi farið fram á Nýfundnalandi,“ segir Gísli og ekki nema von að honum hafi brugðið við framsetningu danska Náttúruminjasafnsins á nýrri sýningu um furðuverk náttúrunnar.
Forsagan er sú að starfskona safnsins hafði leitað ráða hjá Gísla um hvernig ætti að kynna endalok geirfuglsins. Ástæða þess að hún leitaði til hans var áðurnefnd bók, The Last of Its Kind. Hún sendi honum uppkast og mynd af Katli Ketilssyni frá Höfnum, sem var í síðustu áhöfninni sem fór til að veiða geirfuglinn.
Gísli lýsir því að við opnun sýningarinnar, þegar gengið er inn í sýningarrýmið, blasi við mynd af Katli og við myndina sé texti sem gefi í skyn að hann hafi verið drápsmaður síðasta geirfuglsins. Slík framsetning svíður í augum fræðimanns á borð við Gísla, því þetta er einfaldlega ekki rétt.
Gísli segir þetta ekki eina vettvanginn þar sem Ketill hafi verið útmálaður á þennan hátt. Hann hafi verið úthrópaður í fræðiritum og á sýningum víða um heim.
„Mér finnst mjög gagnrýnisvert að virt safn skuli kynna þessa atburði svona á 21. öld. Það er algjör óþarfi. Það hefði mátt segja þetta öðruvísi og af meiri sanngirni. Og ein rökin gegn þessu eru að þetta pirrar íslenska afkomendur Ketils. Ég finn að þetta situr í fólki,“ útskýrir Gísli. „Mér finnst þetta mjög ámælisvert.“
„Það kann að hljóma sérkennilega að mannfræðingur skrifi bók um fugla eða fugl, eina tegund. En þegar upp er staðið er það ekkert sérkennilegt. Mannfræðingar hafa verið að skrifa töluvert um tengsl okkar við önnur dýr og við erum sjálf sannarlega dýr,“ svarar Gísli þegar hann er spurður af hverju hann skrifaði bókina um geirfuglinn og bætir því við að náin tengsl fugla og annarra dýra við manninn gangi aftur í aldir.
Áhugi Gísla á fuglum nær aftur til barnæsku, en hann ólst upp í Vestmannaeyjum. Sem pjakkur þvældist hann um með myndavél og sjónauka ásamt vinum sínum og skoðuðu þeir fuglalífið á eyjunni. Síðar fór hann í sveit í Landeyjum, þar sem allt var morandi af fugli.
Spurður hvað hafi farið í gegnum hugann þegar hann frétti af tilnefningunni segir Gísli: „Mig rak í rogastans þegar ég frétti þetta,“ og bætir því við að þetta þýði einnig að bókin fái meiri athygli og hafi þar með vonandi meiri áhrif.
„Það er í og með tilgangurinn að vekja athygli á umhverfisvanda og í þessu tilviki hættunni sem steðjar að tegundum um allan heim.“
Bókin er þýdd af Önnu Yates og gefin út af Princeton-útgáfunni. Hún hefur hlotið gríðargóða dóma og mikið lof frá virtum gagnrýnendum.
„Galdurinn er að hafa eitthvað fræðilegt að segja, á þann hátt að almenningur skilji það.“
Ítarlegra viðtal við Gísla Pálsson má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.