Sigga Beinteins stökk út úr rútu á ferð

Söngkonan og þjóðargersemin Sigríður Beinteinsdóttir, eða Sigga Beinteins eins og hún kýs að vera kölluð, er gestur Kristínar Sifjar Björgvinsdóttur í Dagmálum. Þar ræða þær stöllur um allt milli himins og jarðar og með einlægum hætti segir Sigga frá hinum ýmsu uppákomum sem hún hefur upplifað á söngferlinum og atburðum sem hafa að vissu leyti skilið eftir sig spor í lífi hennar. 

Staður sem allir komu saman til að hafa gaman

Það hljómar eins og í bíómynd þegar segir frá síðustu rútuferð Stjórnarinnar. Stjórnin var á leið norður að spila á sveitaballi en rútan endaði út af veginum á leiðinni. 

„Já, ég sakna þeirra að einhverju leyti, þau voru mjög skemmtileg og það var gaman,“ svarar Sigga þegar hún er spurð hvort hún beri söknuð til gömlu góðu sveitaballanna.

Hún segist minnast sveitaballanna með hlýhug enda hafi þau verið frábær skemmtun og stuðlað að því að ungir jafnt sem aldnir gætu hist til að skemmta sér saman, kynslóð fram af kynslóð.

„Það voru bara allir þú veist, alveg frá 16 ára og upp í sjötugt mættir bara með flöskuna og allir að hafa gaman,“ lýsir hún en viðurkennir að vera því fegin að þurfa ekki lengur að vera að syngja og spila langt fram eftir nóttu allar helgar líkt og áður tíðkaðist.

„Ég er ekkert rosalega spennt fyrir því lengur að vera til þrjú á nóttunni. Ég geri það auðvitað einstaka sinnum en á þessum tíma er ég náttúrulega miklu yngri, en núna er ég svolítið komin yfir þetta að vera til þrjú á nóttunni.“ 

Vertinn hækkaði hitann í félagsheimilinu til að koma fólki út

Tími sveitaballanna hverfur aldrei úr minni Siggu og á hún margar góðar sögur frá þeim tíma. Það er þó ein sem hún segir algerlega ógleymanlega. Það er sagan af því þegar Stjórnin var að spila á Bíldudal fyrir troðfullu húsi og hitinn í húsinu var óbærilegur bæði fyrir ballgesti og hljómsveitina sjálfa.

„Það var rosa stuð og alveg stappað hús, alveg stappað. Svo skiljum við ekki alveg en um svona hálf þrjú þá verður alveg óbærilega heitt í húsinu. Við svitnum öll og bara allir, fólkið og allir byrja að fara út en það var svo ógeðslega heitt þarna inni. Hljómsveitin og hljóðfærin og allt orðið rennandi blautt og við alveg að leka niður,“ lýsir hún með skemmtilegum hætti.

Þegar ballinu lauk furðaði hljómsveitin sig enn frekar á hitanum sem skyndilega dundi yfir félagsheimilið. Kom þá í ljós að hitinn átti sér eðlilegar skýringar. Staðarhaldarinn í félagsheimilinu hafði sett allt í botn af ásettu ráði til að koma ballgestum út á skikkanlegum tíma. 

„Og það virkaði. Það voru bara allir að kafna þarna inni,“ segir Sigga og hlær. 

Síðasta rútuferðin endaði með ósköpum

Hljómsveitir ferðuðust gjarnan milli landshluta í rútum á þessum tíma með allt sem þurfti til að halda gott ball: hljóðkerfi, ljós, tæknimenn og fleira.

Síðasta rútuferð Stjórnarinnar hverfur Siggu seint úr minni. Hljómsveitin hafði verið að spila í Miðgarði í Skagafirði og var á leiðinni yfir á Akureyri. Veðrið hafði verið gott en þó hafði  snjóað aðeins og hálka var á vegum. 

„Rétt áður en maður kemur inn í Öxnadalinn – nýi vegurinn er kominn þarna núna – kom rosa skörp beygja og brú, og það var svo mikill hálka. Fínasta veður en alveg glerhálka og það eru stórir trukkar þarna sem eru bara að keðja bílana sína og allt þetta,“ útskýrir Sigga sem hafði burðast um með ónotatilfinningu í maganum frá því lagt var af stað frá Miðgarði.

„Tilfinningin sem ég fékk þegar við vorum búin í Miðgarði var, þá var ég að spá, heyrðu það eru engin öryggisbelti í þessari rútu. Og hvar á maður að sitja ef eitthvað kemur upp á? Hvað gerist þá? Ég hugsa með mér að ég ætli að sitja fremst, bara svona eins og því hafi verið hvíslað að mér,“ lýsir hún og ákvað innra með sér að hún skyldi stökkva út ef eitthvað óhapp yrði. 

„Ég sá svo bara hvað verða vildi,“ segir Sigga og lýsir með hvaða hætti rútubílstjóranum tókst að setja í vitlausan gír í miðri brekku á Öxnadalsheiðinni í glerhálku sem endaði með ósköpum.

„Svo byrjar hann að fara í beygjuna og við förum upp brekkuna, eiginlega efst í hana og erum næstum því komin yfir nema hann setur í vitlausan gír. Þannig að hann byrjar að renna aftur á bak og byrjar að sveigja.“

Siggu leist ekki á blikuna og byrjar að öskra á bílstjórann og biður hann um að opna dyrnar á rútunni. Hún ætlaði sér að hoppa út.

„Og ég bara stekk út þegar hún er í þessari sveigju og hoppaði bara í skafl. Svo sit ég bara í þessum skafli og sé svo bara alla hljómsveitina hoppa á eftir mér. Komu allir hoppandi út einn á eftir einum,“ segir Sigga og hlær yfir þessu atviki sem hefði geta farið mun verr en raunin varð.

„Rútan fer alveg niður og lendir bara við brúarstólpa og endar bara á tveimur hjólum, framendinn sneri upp,“ lýsir hún og segir mikla mildi að allir hafi sloppið ómeiddir fyrir utan bílstjórann sem hlaut lítilsháttar meiðsl. 

Brot úr viðtal­inu má sjá í spil­ar­an­um hér að ofan. Dag­mál eru í heild sinni aðgengi­leg fyr­ir áskrif­end­ur Morg­un­blaðsins en einnig er hægt ger­ast áskrif­andi að vikupassa Dag­mála.

Smelltu hér til að horfa á Dag­mál

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir