Mundi ekki nöfn barna sinna eftir blóðtappann

„Í september 2015 þá bara allt í einu vaknaði ég einn morguninn og gat varla staðið upp úr rúminu,“ lýsir söngkonan Sigríður Beinteinsdóttir aðdragandanum að því að hafa fengið blóðtappa í heila eftir mikla vinnutörn árið 2015.

Sigga Beinteins, eins og hún er alltaf kölluð, er gestur í Dagmálum Morgunblaðsins. Þar segir hún raunir sínar af veikindunum sem tóku mjög á hana en hafa á sama tíma breytt lífsviðhorfum hennar fyrir lífstíð.

Algerlega máttlaus og örmagna

„Ég man að þegar ég vakna þennan morgunn að þá er ég yfirgengilega þreytt. Hendurnar á mér voru þungar, ég gat ekki lyft þeim. Það var allt svo þungt. Það var bara allur máttur og allt að fara,“ segir hún.

Á þessum tíma voru yngstu börn Siggu í leikskóla og þangað þurfti hún að koma þeim þennan örlagaríka morgun. 

„Samt einhvern veginn náði ég að drösla þeim upp á leikskóla og svo kem ég heim og er alveg að leka niður og leggst fyrst upp í rúm en hugsaði svo bara: „nei, drullaðu þér fram úr þú þarft að fara vinna“ og fer í tölvuna og ég skil þetta bara ekki ég er svo máttlaus þannig ég ákveð að drífa mig í bað,“ lýsir hún og ætlaði að reyna hressa sig við með baðferðinni.

„Ég læt renna í baðið svo stend ég fyrir framan baðið og hugsaði bara að ef ég færi þarna ofan í þær færi ég ekki upp úr því aftur. Ég hafði ekki orku, ég hafði ekki neitt, ég rétt stóð.“

Missti málið

Í kjölfarið fór hún fram til að ná sér í verkjalyf þar sem hún fann fyrir einhverjum óþægindum í höfðinu sem hún ætlaði sér að reyna að slá á.   

„Þá hringir akkúrat systir mín sem er hjúkrunarfræðingur í Noregi,“ segir Sigga sem kveðst hafa sagt systur sinni hvað hún væri að eiga við á þessum tímapunkti. Sem hjúkrunarfræðingur vissi hún nákvæmlega hvað væri að gerast svo hún þorði ekki öðru en að halda systur sinni á línunni, fá hana til að tala og reyna á minni hennar með því að spyrja hana alls kyns spurninga.

„Svo byrjaði það allt í einu að ég réði ekki við málið. Þá er þetta sennilega að koma, þessi tappi að festast eða orðinn fastur og þetta fer í máltaugarnar,“ útskýrir hún og segist ekki hafa komið frá sér einu einasta orði heldur hafi bunast út úr henni alls kyns bullhljóð en engin orð. 

„Ég gat bara ekki sagt neitt. Ég vissi hvað ég ætlaði að segja en það kom ekki út.“

„Það er ekkert að mér“

Með skynsemina að vopni ákveður Sigga að hringja upp á bráðamóttöku. Málið hafði hún fengið aftur upp að vissu marki en átti það til að rugla saman orðum. Mikill hausverkur hafði gert vart við sig og var henni hætt að standa á sama um heilsuhrakið. Eftir símtal við lækni var henni gert að koma strax á bráðamóttökuna.

„Svo ég fer niður eftir og fékk pabba til að keyra mig. Svo er ég þarna í alls konar rannsóknum og þá kemur það í ljós að ég er með tappa sem fer upp og situr smá stund þegar þetta gerist með málið en svo losnar hann og fer af stað,“ ústkýrir Sigga og notar hendurnar til að lýsa því betur sem átti sér stað innan líkamans. 

Þegar Sigga mætir á bráðamóttökuna tekur á móti henni taugalæknir sem spyr hana spjörunum úr til að kanna ástand hennar. 

„Mér fannst ég alveg með þetta og sagði að það væri ekkert að mér. Ég er bara með ógeðslegan hausverk en hann er að fara,“ segir hún og hæðist að sjálfri sér fyrir að hafa gert lítið úr sínum eigin veikindum sem hefðu geta farið mun verr.

Einfaldar spurningar sem erfitt var að svara

Taugalæknirinn féllst ekki á að sleppa henni við skoðunina og hélt sínu striki með því að varpa að henni alls kyns spurningum er vörðuðu nöfn á fjölskyldumeðlimum, heimilisföng og aðra einfalda hluti sem hún átti að geta svarað leikandi létt.

„Og svo spurði hann: „hvað heita börnin þín?“ og þá bara fraus ég,“ segir Sigga sem segist hafa séð börnin sín myndrænt fyrir sér en ekki munað nöfn þeirra í smástund sama hversu mikið hún reyndi að framkalla þau.

„Ég mundi ekki nöfnin. Læknirinn heldur áfram eitthvað og svo allt í einu komu þau. Þannig ég segi: „hann heitir Viktor, hún heitir Alexandra!“ og þá var þetta bara komið,“ segir Sigga sem þurfti þó að undirgangast frekari rannsóknir því fleiri tappar fundust á sveimi sem blessunarleg var hægt að meðhöndla á réttan hátt í tæka tíð. 

Smelltu á spilarann hér að neðan til að horfa eða hlusta á allt viðtalið við Siggu Beinteins í Dagmálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir