Tónlistarmaðurinn Ásbjörn Kristinsson Morthens, jafnan kallaður Bubbi, byrjaði daginn á jákvæðum nótum. Hann birti einlæga þakklætisfærslu á Instagram-reikningi sínum í morgunsárið, enda fátt betra fyrir geðheilsuna en að einbeita sér að jákvæðu hlutunum og minna sig á litlu sem og stóru hlutina sem gera daglega lífið betra og bjartara.
„Ég fagna hverri hrukku, ég fagna hverjum degi, ég fagna hverju nýju lagi og texta, ég skrifa alla daga, ef þú gerir þetta hvern dag nærðu einu góðu lagi í 30 sinn. Ég fagna vinum og fjölskyldu, ég fagna öllum þarna úti sem elska lögin mín og mæta á tónleika mína, þið eru stórfjölskyldan mín, hafið mætt öll árin, ég hef séð ykkur ung, ég hef séð ykkur eldast og mæta með börnin ykkar, ég er fullur af þakklæti og gleði að eiga ykkur að,” skrifaði Bubbi við fallega svarthvíta haustsjálfu.
Tónlistarmaðurinn hlúir ekki aðeins að geðheilsunni. Bubbi er einnig duglegur að hreyfa líkamann og gera æfingar sem efla líkamlega heilsu. Nýverið deildi hann myndskeiði af sér í ræktinni þar sem hann sippaði eins og sannkallaður meistari.
„Ég sippa til að geta sungið og allar hinar æfingarnar byggja á sama grunni,“ skrifaði hann við myndskeiðið.