Grínistinn Jeff Wittek segist hafa orðið vitni af fólki stunda kynlíf í einu af alræmdu partíum rapparans Sean „Diddy“ Combs, eða P. Diddy, þegar hann var tvítugur að aldri.
Wittek var staddur í partíinu árið 2010 í boði frænda síns sem þá vann að tónlistarmyndbandi fyrir rapparann P. Diddy. Hann lýsir því að á setrinu í Miami þar sem partýið var haldið, hafi húsnæðið verið á um átta hæðum og því ofar sem farið var því grófari athafnir urðu fyrir augunum.
Wittek segist í sakleysi sínu hafa mætt snyrtilegur til fara í póló skyrtu á meðan aðrir komu t.a.m á gegnsæjum nærfötum einum fata. Hann segist ekki hafa verið þátttakandi í neinu af því sem átti sér stað í húsinu en hafi aftur á móti verið vel í því og haft gaman af.
Combs var handtekinn þann 16. september síðastliðinn og hefur verið ákærður m.a. fyrir kynlífsmansal og vændi. Í ákærunni segir að tónlistarmaðurinn hafi þvingað konur til kynlífsathafna með hótunum í alræmdu partýjunum hans.