Sjálft þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson er í aðalhlutverki í nýrri skáldsögu Arnaldar Indriðasonar sem kemur út 1. nóvember. Þetta verður í annað skiptið sem Arnaldur hvílir sig á spennusagnarforminu og skrifar sögulega skáldsögu. Hann leggur óhræddur á djúpið og segir að hver rithöfundur geti skrifað um sinn Jónas eins og hann vill.
Saga Arnaldar kallast Ferðalok sem vísar hvort tveggja til þekktasta ástarljóðs Jónasar og banalegunnar í Kaupmannahöfn. Eins og Arnaldar er von og vísa tókst honum að þefa uppi gamalt sakamál frá æskuárum Jónasar sem tvinnast saman við upprifjun söguhetjunnar á æskuárum sínum.
„Ferðalok fjallar um ástsælasta ljóðskáld Íslands fyrr og síðar og hvernig það flækist í sakamál þegar það kemur til sumardvalar í Öxnadalnum árið 1828. Ungur smali sem hann þekkti hefur horfið af bæ í dalnum og enginn veit um afdrif hans og það er nokkuð sem átti sér stað í veruleikanum. Allt rifjast það upp fyrir skáldinu eftir að hann leggst fótbrotinn inn á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn árið 1845 sem reynist vera hans banalega. Þetta er saga um ástina og vináttuna og sorgina og eftirsjána í lífi Jónasar,“ segir Arnaldur.
„Ég var að lesa um Jónas einu sinni sem oftar þegar ég veitti því athygli sem mér hafði yfirsést áður að þetta mannshvarf bar upp á sama tíma og Jónas kom heim úr ferðalaginu norður heiðar sem lagði grunninn að frægasta ástarkvæði bókmenntasögunnar, Ferðalokum. Mér fannst eins og ég hefði hitt á gott söguefni með því að spinna þetta tvennt saman. Um leið er dregin upp mynd af tveimur efnispiltum í sveitinni; annar fær tækifæri til þess að mennta sig, hinn er bundinn á klafa fátæktar.“
Ítarlegt viðtal er við Arnald í laugardagsblaði Morgunblaðsins.