Janice Small Combs, móðir bandaríska tónlistarmannsins Sean Combs, betur þekktur sem P. Diddy, ver son sinn í yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér og segir hann ekki vera skrímsli.
Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Mikið hefur verið fjallað um mál tónlistarmannsins sem var handtekinn í september og hefur verið sakaður um að hafa tekið þátt í að beita konur kynferðisofbeldi í áraraðir.
Í ákæru sem gefin var út á hendur honum segir að Combs hafi „misnotað, hótað og kúgað konur og aðra í kringum sig til að uppfylla kynferðislegar langanir sínar, verja orðspor sitt og hylma yfir framgöngu sína.
Þá er hann sakaður um að hafa rekið „glæpaveldi“ sem stóð meðal annars að mannráni, íkveikjum, nauðungarvinnu og mútum.
Í yfirlýsingunni segist móðir hans vera niðurbrotin og gífurlega sorgmædd yfir ásökununum en tekur hún fram að þó að hann hafi gert mistök í fortíðinni sé hann ekki það skrímsli sem hann hefur verið málaður upp sem.
Segir hún það særa sig mikið að sonur hennar sé ekki dæmdur út frá staðreyndum heldur út frá frásögnum sem búnar séu til úr lygum.
Jafnframt segir hún það sárt að sjá fólk níðast á syni sínum áður en hann hefur fengið tækifæri til að tjá sig.
Þá tjáði hún sig um atvik þegar tónlistarmaðurinn náðist á myndbandsupptöku vera að beita fyrrverandi kærustu sína alvarlegu ofbeldi.
„Sonur minn hefur kannski ekki alltaf verið heiðarlegur með ákveðna hluti, eins og að neita að hann hafi nokkurn tíma beitt ofbeldi gegn fyrrverandi kærustu þegar eftirlitsmyndavél hótelsins sýndi annað,“ skrifaði hún í yfirlýsingu sinni.
Segist hún trúa því að vegna þess að lögfræðiteymi sonar síns hafi á sínum tíma kosið að leysa ákæru fyrrverandi kærustu hans utan réttar í stað þess að berjast gegn henni hafi yfirvöld litið á það sem viðurkenningu á sök.
Þá sagði hún að ein lygi sonar síns þýði ekki að hann sé sekur um allar hinar andstyggilegu ásakanir sem hann stendur nú fyrir eða að hann sé sekur um þá hluti sem hann er ákærður fyrir.
„Það er sannarlega sárt að horfa upp á heiminn snúast gegn syni mínum svo fljótt og auðveldlega vegna lyga og ranghugmynda, án þess að heyra nokkurn tíma hans hlið eða gefa honum tækifæri til að kynna sína hlið,“ sagði móðir Combs og bætti við að hún teldi að sumir af ákærendum hans væru hvattir áfram af peningum.
Tónlistarmaðurinn mun mæta fyrir dómstóla á miðvikudag þar sem lögfræðingar hans munu reyna að færa rök fyrir því að hann verði látinn laus gegn tryggingu.
Hefur honum áður verið neitað um tryggingu eftir að saksóknarar málsins héldu því fram að hann hefði reynt að hindra rannsókn málsins og haft ítrekað samband við fórnarlömb og vitni til þess að reyna að gefa þeim rangar frásagnir af atburðum sem hafa átt að eiga sér stað.