Óskarsverðlaunaleikkonan Sally Field sagði frá erfiðri lífsreynslu sinni í myndskeiði sem hún deildi með fylgjendum sínum á Instagram á sunnudag.
Field, sem er 77 ára, gekkst undir ólöglega fóstureyðingu árið 1963, þá 17 ára gömul. Hún ferðaðist ásamt heimilislækni sínum, eiginkonu hans og móður sinni frá Bandaríkjunum yfir til Tijuana í Mexíkó þar sem aðgerðin var framkvæmd, án deyfingar.
Field, sem gekkst undir fóstureyðingu tíu árum áður en þungunarrofslöggjöfin Roe v. Wade var samþykkt í Bandaríkjunum, segir þessa erfiðu lífsreynslu stóra ástæðu þess að hún styðji heilshugar við forsetaframboð Kamölu Harris.
Forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins greindi frá því á fyrstu dögum framboðsins síns að hann myndi gera allt sem í sínu valdi stæði til að endurheimta frjósemisfrelsi.
„Ég hef verið mjög hikandi við að gera þetta, það er að segja sögu mína. Hún gerist á mun erfiðari tímum en þeim sem við erum að upplifa í dag. Á tímum þar sem getnaðarvarnir voru ekki tiltækar nema ef þú varst gift.
Ég finn að svo margar konur af minni kynslóð hafa gengið í gegnum svipaða hluti og verð ég sterkari í hvert sinn sem ég hugsa til þeirra. Ég tel, líkt og ég, að þær hljóti að vilja berjast fyrir barnabörnin sín sem og allar ungu konur þessa lands.
Við verðum að vernda frjósemisfrelsi. Við getum ekki farið til baka,“ skrifar Field við færsluna.
Hæstiréttur Bandaríkjanna afnam réttinn til þungarrofs í landinu, í dómi sem kveðinn var upp í júní. Með dóminum er nærri hálfrar aldar gömlu dómafordæmi snúið við.