Aðdáendur Liam Payne koma nú saman fyrir utan hótelið í Buenos Aires sem breski tónlistarmaðurinn fannst látinn fyrir utan fyrr í dag.
Lögreglan greindi frá því að tilkynning hefði borist klukkan 17.04 að staðartíma, eða rétt eftir klukkan átta í kvöld að íslenskum tíma. Sjö mínútum síðar voru viðbragðsaðilar komnir á vettvang.
Hinn 31 árs gamli Payne hafði þá fallið niður af þriðju hæð hótelsins og hlotið bana af.
Lögregla greindi frá því að tilkynnt hefði verið um „árásargjarnan mann sem gæti verið undir áhrifum fíkniefna eða áfengis“.
Payne er talinn hafa höfuðkúpubrotnað er hann féll um 13 til 14 metra. Líkið hefur verið flutt í líkhús.
Payne var í strákahljómsveitinni One Direction sem var stofnuð árið 2010 er Payne, Niall Horan, Harry Styles, Louis Tomlinson og Zayn Malik tóku þátt í breska sjónvarpsþættinum X Factor.
Hljómsveitin varð fljótlega heimsfræg og gríðarlega vinsæl á meðal ungra stúlkna sérstaklega.
Árið 2015 sagði Malik hins vegar skilið við hljómsveitin og í kjölfarið héldu allir liðsmennirnir hver í sína áttina. Árið 2019 gaf Payne út sólóplötu.
Hann sást á tónleikum Horan í Argentínu 2. október.
„Fréttirnar voru mikið högg,“ sagði hin 27 ára gamla Pilar Bilik við AFP–fréttaveituna.
„Mér líður eins og ég sé búin að týna hlut af barnæsku minni,“ sagði hin 21 árs gamla Lena Duek og bætti við að hún hefði vonast til þess að One Direction kæmi aftur saman.
„Ég er í áfalli, ég trúi þessu ekki. Ég bý fimm húsum frá og fannst ég þurfa að vera hérna,“ sagði hin 23 ára Martina Di Lalla.