Hótelstjórinn á hótelinu sem breski söngvarinn Liam Payne dvaldi á er sagður hafa hringt á neyðarlínuna í gær skömmu áður en hann lést. Óttaðist hótelstjórinn að Payne myndi fara sér að voða.
Argentískir miðlar greina frá því að hótelstjórinn hafi hringt í neyðarlínuna og tilkynnt gest sem væri „á fíkniefnum og að eyðileggja herbergið“.
Er hótelstjórinn sagður hafa greint frá áhyggjum þess efnis að á herbergi gestsins væru svalir og óttaðist hann að gesturinn myndi gera eitthvað sem myndi stefna lífi hans í hættu.
Áður hafði verið greint frá því að lögreglan hefði brugðist við tilkynningu um árásargjarnan mann sem væri hugsanlega undir áhrifum fíkniefna og áfengis.
Payne lést eftir fall af þriðju hæði á Casa Sur hótelinu sem hann dvaldi á í Buenos Aires í Argentínu.
Er Payne talinn hafa höfuðkúpubrotnað er hann féll um 13 til 14 metra.
Örrygismálaráðuneyti Argentínu greindi frá því í yfirlýsingu að þegar viðbragðsaðilar hefðu komið á vettvang hefði hótelstjórinn tilkynnt þeim um andlát manns sem hefði „stokkið fram af svölunum í herbergi sínu“.
Einungis örfáar mínútur höfðu liðið þar til fréttir af andláti breska söngvarans höfðu borist um allan heim.
Aðdáendur flykktust að hótelinu um kvöldið þar sem lögregla var enn að störfum.
Alberto Crescenti, yfirmaður bráðaheilbrigðisþjónustunnar í Buenos Aires, sagði við argentíska sjónvarpsstöð að „enginn möguleiki hefði verið á endurlífgun“.
Hann segir viðbragðsaðila hafa flýtt sér að Casa Sur hótelinu eftir að símtal barst neyðarlínunni klukkan 17.04.
Voru þeir komnir sjö mínútum síðar á vettvang og var Payne úrskurðaður látinn á vettvangi.
Breska utanríkisþjónustan staðfesti við fjölmiðla að hún hefði verið í samskiptum við argentísk yfirvöld vegna tilkynningar um andlát bresks manns en vildi þó ekki gefa upp nafn hans.
Uppfært: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt.
Embætti landlæknis bendir á að mikilvægt sé að þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir segi einhverjum frá líðan sinni, hvort sem er aðstandanda eða hafi samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, eða á netspjalli 1717.is, við hjúkrunarfræðing í netspjalli á heilsuvera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-samtakanna s. 552-2218. Píeta-samtökin bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyrir aðstandendur þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-samtökunum í síma 552-2218.