Aðdáendur strákasveitarinnar IceGuys geta heldur betur fagnað í dag, því strákasveitin geysivinsæla hefur gefið út nýja plötu. Ekki nóg með það, heldur tilkynntu strákarnir að ný bók um sveitina væri komin í sölu á vefsíðu þeirra.
Þeir sögðu frá þessu í Ísland vaknar í morgun, þar sem þeir Friðrik Dór og Árni Páll Árnason, eða Herra Hnetusmjör, mættu fyrir hönd félaga sinna í IceGuys og spjölluðu við Bolla Má og Kristínu Sif.
Spurðir út í titil plötunnar, sem ber krassandi heitið „1918“, svaraði Frikki Dór sposkur: „Gaman að þú skyldir spyrja. Það er Frostaveturinn mikli. Og við erum IceGuys,“ sagði Frikki.
„Við verðum að ná til unga fólksins,“ bætti Árni hlæjandi við.
Þeir félagar fengu að spreyta sig á persónuleikaprófi K100 í þættinum, þar sem þeir fóru á kostum enda mikill galsi í fólki eftir lítinn svefn í nótt eftir útgáfuna.
„Það er eitt risavaxið líka. Við ætlum að fá að tilkynna það fyrst hér. IceGuys eru að gefa út bók. IceGuys-bókin er komin í sölu á Iceguys.is,“ sagði Frikki.
„Þetta er svona ef þú vilt komast á þetta dýpra level,“ sagði Frikki.
„Við erum mjög spenntir að leyfa fólki að sjá hana og lesa hana. Þetta er mjög sniðugt fyrir krakkana,“ sagði Árni.
Þeir staðfestu einnig að þeir hefðu bætt við einum auka jólatónleikum í Laugardalshöll 13. desember. Enn er hægt að fá miða hér.
Hér fyrir neðan má hlusta á plötuna á Spotify.
Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið í Ísland vaknar í heild sinni.