Arnhildur hlýtur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Arnhildur Pálmadóttir vann umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega nálgun í …
Arnhildur Pálmadóttir vann umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2024 fyrir þverfaglega nálgun í sinni vinnu og áherslu á endurvinnslu byggingarefnis. Ljósmynd/Árni Beinteinn

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hlaut í kvöld umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Tilkynnt var um vinningshafa verðlauna Norðurlandaráðs í beinu streymi á RÚV.

Í ár er sjónum beint að sjálfbærri byggingarstarfsemi og er sérstök áhersla lögð á aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkitektúr. Arnhildur hefur vakið sérstaka athygli fyrir frumkvöðlahugsun og þverfaglega nálgun í arkitektúr og byggingarstarfsemi í leit að umhverfisvænni lausnum. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að Arnhildur sé fjölhæfur sérfræðingur sem brennur fyrir breytingum í borgarskipulagi, arkitektúr og byggingariðnaði. Þá er þar tekið fram að í vinnu sinni sem arkitekt kemur hún að öllum stigum byggingarverkefna, þ.e. borgarskipulagi, hönnun og smíðaferli bygginga.

Heiður að vera valin

Umhverfisverðlaunin eru veitt fyrir sérstakt framlag til þess að auka sjálfbærni á Norðurlöndum. „Þessi verðlaun hafa mikla merkingu og það er mikill heiður að vera valin,“ segir Arnhildur í viðtali við Morgunblaðið. 

„Mér finnst þessi verðlaun vera viðurkenning til okkar allra sem erum að ýta á tilteknar breytingar í kerfinu. Þetta er vaxandi hreyfing verkfræðinga, arkitekta, vísindafólks, rithöfunda og fleiri sem eru að tala um umhverfismál tengd mannvirkjagerð og ég er bara einn hluti af því. Þar sem ég er ekki valin fyrir eitt ákveðið verkefni heldur starf mitt í heildina þá lít ég á þetta sem viðurkenningu fyrir mitt framlag til þessara mála.“

Nánar er rætt við Arnhildi á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, miðvikudaginn 23. október.

Athygli vakti að bæði Noregur og Danmörk hlutu hvort um sig tvenn verðlaun. Einn Íslendingur var í hópi verðlaunahafa, Arnhildur Pálmadóttir arkitekt. Alls voru 53 verk, verk­efni og lista­menn til­nefnd til verðlauna Norður­landaráðs í ár og voru ís­lensk­ar til­nefn­ing­ar til verðlaun­anna átta tals­ins. Verðlaunin nema hver um sig 300.000 dönskum krónum og eru afhent á árlegu þingi Norðurlandaráðs sem fram fer á Íslandi dagana 28.–31. október.

Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs 2024. Talið efst frá vinstri: Niels Fredrik …
Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs 2024. Talið efst frá vinstri: Niels Fredrik Dahl, Arnhildur Pálmadóttir, Rune Glerup, Jakob Martin Strid og Dag Johan Haugerud. Samsett mynd

Vinningshafar verðlauna Norðurlandaráðs 2024

Umhverfisverðlaun:

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt, Ísland.

Barna- og unglingabókmenntaverðlaun:

Jakob Martin Strid fyrir Den fantastiske bus, Danmörk.

Tónlistarverðlaun:

Rune Glerup fyrir Om Lys og Lethed, Danmörk.

Kvikmyndaverðlaun:

Dag Johan Haugerud fyrir Sex, Noregi.

Bókmenntaverðlaun:

Niels Fredrik Dahl fyrir Fars rygg, Noregur.

Rökstuðningur dómnefndar

„Arnhildur er fjölhæfur sérfræðingur sem brennur fyrir breytingum í borgarskipulagi, arkitektúr og byggingariðnaði.

Í vinnu sinni sem arkitekt kemur Arnhildur að öllum stigum byggingarverkefna, þ.e. borgarskipulagi, hönnun og smíðaferli bygginga. Með fjölbreyttum áhugamálum sínum og kunnáttu stuðlar hún að breytingum og finnur sjálfbærar lausnir í iðnaði sem ber ábyrgð á um 40% af kolefnislosun heimsins.

Hönnunarverkefni hennar, hvort sem um er að ræða einstaka hús eða borgarskipulag, snúast að miklu leyti um að nýta endurunnin og endurnýtt efni, minnkaða orku- og efnisnotkun, kolefnishlutlausar lausnir og ástundun sjálfbærs lífsstíls, t.d. með því að auðvelda notkun almenningssamgangna, deilihagkerfis og fleira.

Auk þess að stýra eigin fyrirtæki, s.ap arkitektar, hefur hún nýlega tekið við stjórn stofu danska arkitekta- og nýsköpunarfyrirtækisins Lendager á Íslandi en fyrirtækið sérhæfir sig í sjálfbærni og hringrásarhugsun í mannvirkjagerð. Jafnframt hefur hún komið að kennslu við hönnunardeild Listaháskóla Íslands ásamt því að hafa birt greinar um nýsköpun, tækni og sjálfbærni í hönnun og byggingarstarfsemi og haldið fyrirlestra á því sviði.

Um þessar mundir vinnur Arnhildur að rannsóknum að því hvort stýra megi hraunrennsli í mót til þess að nota við byggingargerð. Hún mun sýna vinnu sína við þetta efni á 19. Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025, fyrst Íslendinga.“

Fjallað var um verkefnið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins árið 2021 undir fyrirsögninni Manngerðar hraunborgir.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Málefni tengd sköttum, reikningum og skuldum hafa íþyngt þér að undanförnu. Það rofar til seinna í næstu viku. Makinn kemur þér á óvart.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
5
Ragnar Jónasson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Málefni tengd sköttum, reikningum og skuldum hafa íþyngt þér að undanförnu. Það rofar til seinna í næstu viku. Makinn kemur þér á óvart.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
5
Ragnar Jónasson