Halelúja! fyrir Víkingi og Wang

Víkingur Heiðar og Yuja Wang á sviðinu í Hörpu. Góður …
Víkingur Heiðar og Yuja Wang á sviðinu í Hörpu. Góður rómur var gerður að tónleikum þeirra í Zürich í Sviss. Ljósmynd/Mummi Lú

Víkingur Heiðar Ólafsson og Yuja Wang eru hafin til skýjanna í umsögn, sem birtist í blaðinu Neue Zürcher Zeitung um tónleika þeirra í Zürich á föstudag. Talað er um ryþmískan storm og í lokin hafi enginn tollað lengur í sæti sínu.

Umsögnin hefst á því að þetta óvenjulega tvíeyki sé að sjá eins og tesa og antitesa, við vinstri flygilinn sitji Wang, sem kölluð hafi verið „Rihanna klassíkurinnar“, og standi undir því klædd knallgulum stuttum kjól, en við þann hægri sé Íslendingurinn, sem sé holdgervingur norræns mínimalisma í hógværum jakkafötum.

Tónleikaferð þeirra sé vart hafin, en nú þegar megi sjá upphrópanir í efsta stigi á félagsmiðlum um „dúett dúettanna“.

Upptökunum streymt í milljarð skipta

Julia Ramseier, rýnir Neue Zürcher Zeitung, segir í umsögn sinni að nánast hafi mátt finna líkamlega fyrir spennunni í salnum yfir því sem í vændum var, hvort kæmi til listræns áreksturs milli kraftpíanistans Wang, sem þegar hefði afrekað spila alla fjóra konserta Rakhmanínovs í beit, og hljómalkemistans, sem ekki væri minna sjarmerandi þótt ekki væri jafn glysgjarn og hefði afrekað að upptökum hans hjá Deutsche Grammophon hefði verið streymt í einn milljarð skipta.

Á dagskrá voru sömu verk og á tónleikum þeirra í Hörpu 20. og 21. október. Segir að sérstaklega hafi tekist vel til með flutninginn á Fantasíu Schuberts þar sem án afláts hafi skipst á von og tregi. Þar hafi píanóleikararnir ekki aðeins sýnt framúrskarandi tæknikunnáttu sína, heldur þá tilfinningu fyrir samleik, sem skipti sköpum þegar leikið er fjórhent og er um leið mesta áskorunin.

Í umsögninni segir einnig að annar hápunktur tónleikanna hafi óvænt verið verkið Hallelujah Junction eftir John Adams. Þar hafi Wang og Víkingur Heiðar boðið hvort öðru byrginn af agaðri fullkomnum svo úr hafi orðið sannkallaður ryþmastormur.

Enn hafi svo ákafinn magnast í hinum Sinfónsku dönsum Rakhmanínovs, sem höfundurinn hafi sjálfur lýst sem sínum síðasta neista. Í því verki hafi neisti hrifningarinnar líka endanlega náð bólfestu í áhorfendum. Víkingur Heiðar og Wang hefðu þakkað fagnaðarlætin með því að setjast hlið við hlið við sama hljóðfæri og alls hefðu aukalögin verið fimm, þar á meðal sívinsæl lög eins og Unverskur dans eftir Brahms og Snjókorn úr djasssvítu Alesancers Zfasmans. Að því loknu hefði enginn tollað lengur í sæti sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu augun hjá þér og láttu einskis ófreistað til þess að komast til botns í því máli, sem þú hefur tekið að þér. Græddur er geymdur eyrir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hafðu augun hjá þér og láttu einskis ófreistað til þess að komast til botns í því máli, sem þú hefur tekið að þér. Græddur er geymdur eyrir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Loka