Bandaríski leikarinn Matt LeBlanc er hættur að leika að sögn heimildamanns breska fréttamiðilsins Daily Mail.
LeBlanc, sem sló eftirminnilega í gegn í hlutverki Joey Tribbiani í gamanþættinum Friends, dró sig hljóðlega í hlé frá sviðsljósinu í kjölfar andláts Matthew Perry á síðasta ári og hefur víst enga löngun til þess að snúa aftur á skjáinn. Hann er sagður vilja rækta það sem skiptir hann mestu máli, fjölskyldu- og vinasambönd.
Leikarinn, sem er 57 ára, hefur lítið sést opinberlega síðustu mánuði og fór síðast með hlutverk í sjónvarpsþáttaröðinni Man with a Plan sem hætti göngu sinni árið 2020.
Heimildamaðurinn sagði í samtali við blaðið að LeBlanc myndi einungis íhuga endurkomu ef að ómótstæðilegt hlutverk eða verkefni myndi banka upp á síðar á lífsleiðinni.
„Hann er vel settur fjárhagslega og búinn að ákveða að hann vilji ekki vera í sviðsljósinu lengur. Hann vill njóta lífsins og lifa rólegu lífi.”