„Þetta er ljót mynd“

Vivian Ólafsdóttir í Eftirleikjum.
Vivian Ólafsdóttir í Eftirleikjum.

Fyrsta kvikmynd Ólafs Árheim, Eftirleikir, er ógnartryllir, að sögn leikstjórans. Það sést líka vel á stiklunni en þó virðist örla á gamansömum tóni og þá í svartari kantinum.

Ólafur segist hafa byrjað að skrifa handrit myndarinnar árið 2016 og hófst framleiðsla ári síðar. Það er býsna langur tími og segir Ólafur tímafrekt að gera kvikmynd upp á eigin spýtur og fjármagna hana úr eigin vasa. „Það tekur oft mörg ár,“ bendir hann á.

Ólafur hefur gert stuttmyndir allt frá níu ára aldri. „Ég ól sjálfan mig upp á kvikmyndum og kvikmyndagerð og komst inn í Kvikmyndaskólann 17 ára, árið 2012 eða ‘13 en gat að vísu ekki byrjað í skólanum fyrr en ég var orðinn 18 ára, ég þurfti að fá námslán og svona,“ segir Ólafur frá.

Þrátt fyrir að Ólafur væri ungur að árum gekk námið vel og hann hlaut verðlaun fyrir bestu útskriftarmynd árið 2015. „Ég kom úr Kvikmyndaskólanum með dálítið stórt egó og taldi mig geta farið að gera mynd í fullri lengd. Sem ég gerði svo reyndar en það tók aðeins lengri tíma en ég sá upphaflega fyrir,“ segir Ólafur kíminn.

Hann segir að myndin hafi verið tekin á þremur tímabilum, á árunum 2017, 2019 og 2021. „Það tók tíma að undirbúa þetta,“ segir Ólafur, hann hafi unnið að myndinni sem sjálfstæður kvikmyndagerðarmaður og m.a. séð um alla eftirvinnslu sjálfur.

Leikstjórinn Ólafur Árheim hefur gert stuttmyndir frá 9 ára aldri.
Leikstjórinn Ólafur Árheim hefur gert stuttmyndir frá 9 ára aldri.

Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum

Hvers konar mynd er þetta, um hvað er hún?

„Þetta er ljót mynd,“ svarar Ólafur, „mynd um fólk sem gerir ljóta hluti og glæpi, vissulega.“ Sagan sé sögð frá sjónarhorni þessa fólks, sem er þó ekki atvinnuglæpamenn heldur fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. „Sem etur til enn frekari áfalla og átaka sem ganga milli kynslóða. Þaðan kemur nafnið, Eftirleikir,“ útskýrir Ólafur og vísar í texta á síðu Laugarásbíós um myndina. Þar segir að hún fjalli um eftirleiki ofbeldisfullra átaka á milli nokkurra einstaklinga sem eigi sér stað á þremur mismunandi tímapunktum yfir þrjá áratugi. „Hver atburður er tengdur hinum í gegnum langvarandi afleiðingar og leiðir persónurnar að lokum til frumlegra hefndaraðgerða,“ segir á vefnum.

Ólafur leggur áherslu á að Eftirleikir sé bíómynd, gerð til sýninga í kvikmyndahúsi. „Það er mín skoðun að sjónvarpsþættir séu fyrir sjónvarp og bíómyndir fyrir bíó, þetta á ekkert að vera flókið,“ segir hann kíminn. Hann nefnir sem dæmi hljóðvinnsluna, hljóðið sé ætlað öflugu kerfi líkt og því sem finna megi t.d. í Laugarásbíói.

Þrír helstu leikarar myndarinnar eru þau Vivian Ólafsdóttir, Jóhann G. Jóhannsson og Andri Freyr Sigurpálsson, sem öll hafa þegar hlotið verðlaun fyrir frammistöðu sína í henni. Andri hlaut verðlaun á hátíðinni Cinema Scares fyrr á árinu og Vivian og Jóhann á PIFF, kvikmyndahátíð sem haldin hefur verið í nokkur ár á Ísafirði.

Jóhann G. Jóhannsson í Eftirleikjum.
Jóhann G. Jóhannsson í Eftirleikjum.

„Andrúmsloftið er glettnislegt“

Leikararnir þrír eru áberandi í stiklu myndarinnar, sem kom blaðamanni skemmtilega á óvart því þótt myndin sé greinilega ofbeldisfull má líka finna spaugileg atriði. Ólafur staðfestir það og segir áhorfendur gjarnan mega hlæja líka. „Andrúmsloftið er glettnislegt, það er andstæður að finna í því,“ segir hann. „Þótt þetta séu myrk málefni eru það andstæðurnar sem skipta máli.“

Blaðamaður kannast við aðalleikarana Jóhann G. og Vivian en ekki þriðja aðalleikarann, Andra. Hver skyldi það vera? „Þetta er svolítið myndin mín og Andra, við vorum saman í Kvikmyndaskólanum og ákváðum fyrir mörgum árum að gera eitthvað saman og þetta verkefni varð til upp úr því,“ svarar Ólafur.

Hann segir að þótt eitthvað sé um ofbeldi í myndinni sé lítið um nekt. „Ég sýni bara eins mikið og ég tel mig þurfa,“ segir hann.

Viðtalið má lesa í heild í Morgunblaði dagsins, 4. nóvember. 

Andri Freyr Sigurpálsson fer með eitt af aðalhlutverkum Eftirleikja.
Andri Freyr Sigurpálsson fer með eitt af aðalhlutverkum Eftirleikja.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vita skaltu að það dugir ekki að sitja með hendur í skauti og halda að lífið leiti þig uppi. Það er eitt og annað sem þig langar til þess að framkvæma en lætur ógert vegna þess að þú veist ekki hvar þú átt að byrja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Carla Kovach
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vita skaltu að það dugir ekki að sitja með hendur í skauti og halda að lífið leiti þig uppi. Það er eitt og annað sem þig langar til þess að framkvæma en lætur ógert vegna þess að þú veist ekki hvar þú átt að byrja.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Carla Kovach
5
Birgitta H. Halldórsdóttir