Spjallþáttastjórnandinn Jimmy Fallon er ekki aðdáandi Donald Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, og hikar ekki við að gera grín að heimskupörum hans í þætti sínum The Tonight Show Starring Jimmy Fallon.
Á mánudag sýndi Fallon myndbandsklippu frá kosningafundi forsetaframbjóðandans sem haldinn var í Wisconsin á föstudag, en klippan sýnir Trump kvarta undan lágum hljóðnemastandi er hann stendur á sviðinu og ræðir við stuðningsmenn sína.
Forsetaframbjóðandinn áttaði sig ekki á því að hann var að tala í tóman hljóðnemastand, með hljóðnemann í hendi sér, og byrjar því að hreyfa höndina upp og niður eftir standinum áður en hann galopnar munninn og byrjar að hreyfa höfuð sitt á svipaðan máta. Þessir taktar minntu marga á munnmök ef marka má brandara Fallon og athugasemdir netverja á samfélagsmiðlum.
Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu í dag og kjósa sér nýjan forseta. Valið stendur á milli Kamölu Harris og Trump og sem stendur er hnífjafnt á milli frambjóðendanna.