Á fátt sameiginlegt með Lúkasi

Jack Bannon í hlutverki Lúkasar í þáttaröðinni Dimmu sem byggist …
Jack Bannon í hlutverki Lúkasar í þáttaröðinni Dimmu sem byggist á samnefndri bók Ragnars Jónassonar. Ljósmynd/Lilja Jónsdóttir

„Ég fékk símtal einn daginn þar sem mér var tjáð að mér yrði sent handrit og ég spurður að því ­hvernig mér litist á að flytja til Íslands um niðdimman vetur,“ segir breski leikarinn Jack Bannon og hlær dátt þegar blaðamaður spyr hann að því hvernig það hafi komið til að hann tók að sér að leika rannsóknarlögreglumanninn Lúkas í þáttaröðinni Dimmu [e. The Darkness] sem byggist á samnefndri bók Ragnars Jónas­sonar.

„Ég hugsaði því með mér: „Ú, ég hef aldrei komið þangað en langar til að fara svo ég las handritið og féll alveg fyrir því.“ Ég myndi segja að Ísland væri í rauninni aðalpersónan í þáttunum og þættirnir heita The Darkness sem er bókstaflega það sem ég upplifði í þrjá mánuði. En það var æðislegt og ég elskaði það.“

Spurður í framhaldinu hvernig það hafi verið fyrir hann að venjast myrkrinu og sjá varla dagsbirtu yfir þessa dimmustu mánuði ársins hér á landi svarar hann því til að það hafi verið frábært.

„Ég var alveg að fara að eignast barn á þessum tíma svo konan mín var að mestu heima meðan á tökum stóð en kom í heimsókn til mín. Ég bjó í mjög flottri íbúð með útsýni yfir borgina og það var eiginlega töfrum líkast. Ég elskaði öll þessi leiftrandi ljós í borginni sem komu mér í jólaskap, þetta var því frábær lífsreynsla,“ segir hann.

Sænska leikkonan Lena Olin og Jack Bannon leika samstarfsfélagana Huldu …
Sænska leikkonan Lena Olin og Jack Bannon leika samstarfsfélagana Huldu og Lúkas. Ljósmynd/Kristinn Þórðarson

Vildi fanga íslenska andann

Þáttaröðin ger­ist öll á Íslandi og er leikstýrt af sænska leikstjóranum Lasse Hallström, sem þríveg­is hef­ur verið til­nefnd­ur til Ósk­ar­sverðlauna, en eiginkona hans, sænska leik­­konan Lena Olin, leikur lög­reglu­kon­una Huldu Her­manns­dótt­ur sem er aðal­persóna bók­ar­inn­ar.

Bannon, sem lék aðal­hlut­verkið í HBO-þáttaröðinni Pennyworth, leik­ur nýjan sam­starfs­mann Huldu en persóna hans var sérstaklega skrifuð inn í þættina og kemur því ekki fram í bókinni. Þegar blaðamaður spyr hvort hann eigi margt sameiginlegt með rannsóknarlögreglumanninum Lúkasi fer Bannon að skellihlæja.

„Ég held að Lúkas sé sá kar­akter sem ég hef leikið sem ég á minnst sameiginlegt með. Þetta var því ákveðin áskorun en hún var spennandi. Ég fór tveimur vikum áður en tökur hófust til Íslands til að undirbúa mig og reyna að kynnast landanum því Lúkas fæddist á Íslandi en hafði búið í Bretlandi nánast allt sitt líf.

Mig langaði því að reyna að fanga þennan íslenska anda þó svo að hann sé ekki íslenskur karakter. Svo ég gerði það og kynnti mér vel bæði gömul lögreglumál og þetta samspil góðu löggunnar við vondu lögguna, samstarf þeirra. Það eina sem við Lúkas eigum kannski sameiginlegt er sú staðreynd að hann er þrítugur karlmaður, allt annað er ólíkt.“

Sænski leikstjórinn Lasse Hallström, Jack Bannon og skoski leikarinn Douglas …
Sænski leikstjórinn Lasse Hallström, Jack Bannon og skoski leikarinn Douglas Henshall ræða málin á tökustað. Ljósmynd/Kristinn Þórðarson

Braut karakterinn til mergjar

Þá segist Bannon hafa eytt dá­góðum tíma í að stúdera karakterinn og átta sig á hvernig hann ætti að koma fyrir í þáttunum.

„Ég velti því mikið fyrir mér hvernig hreyfingar hans ættu að vera, göngulagið og röddin og hvernig reynsla hans af því að búa á ólíkum stöðum gæti nýst honum. Hann er mjög fróðleiksfús svo ég hugsaði með mér að hann gæti látið heilann ráða för. Það var í raun ákveðin gjöf að leika hann því hann er að vissu leyti autt blað þar sem hann er ekki í bókinni en þeir þurftu einhvern inn í söguna sem næði augum áhorfenda,“ segir hann og nefnir í kjölfarið að þó nokkuð hafi verið stuðst við spuna í tökunum.

„Lena er svo frábær leikari og Lasse alveg ótrúlegur leikstjóri og við nýttum okkur spunann töluvert sem er eitthvað sem ég hef ekki gert áður. Tilhugsunin ein hræddi mig örlítið en ég naut þess virkilega og lærði svo ótal margt á þessum þremur mánuðum sem ég var þarna. Þetta var því ótrúleg reynsla.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Væntingar annarra til þín munu líklega koma þér í opna skjöldu í dag eða þá að eitthvað stendur ekki undir væntingum þínum. Njóttu þess að slaka á í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kathryn Hughes
5
Kolbrún Valbergsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Væntingar annarra til þín munu líklega koma þér í opna skjöldu í dag eða þá að eitthvað stendur ekki undir væntingum þínum. Njóttu þess að slaka á í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Carla Kovach
3
Kathryn Hughes
5
Kolbrún Valbergsdóttir