Argentínska lögreglan hefur þrjá einstaklinga til rannsóknar vegna dauða breska söngvarans Liam Payne.
Vefmiðillinn TMZ greindi fyrst frá.
Payne lést í Buenos Aires í Argentínu fyrir þremur vikum eftir að hann féll af þriðju hæð á hóteli. Krufning hefur leitt í ljós að hann hafi hlotið innvortis og útvortis blæðingar í kjölfar fallsins auk annarra áverka.
Tveir hótelstarfsmenn og einn ónefndur „vinur“ Payne eru grunaðir um að eiga þátt í andláti hans, en þeir eru meðal annars sagðir hafa útvegað honum örvandi eiturlyf.
Lögreglan gerði leit á hótelinu í annað sinn á þriðjudag og skoðaði myndefni úr öryggismyndavélum og leitaði að sönnunargögnum í skápum starfsmannanna.
Fjölskylda Payne flaug með lík hans aftur til Bretlands á miðvikudag, þremur vikum eftir andlát hans.