Þrír einstaklingar í Argentínu hafa verið handteknir í tengslum við dauða Liam Payne.
Payne féll fram af svölum á hóteli í höfuðborginni Buenos Aires þann 16. október en einstaklingarnir eru ákærðir fyrir að hafa útvegað Payne fíkniefni og yfirgefið hann í annarlegu ástandi að sögn Andrés Madrea, saksóknara í Argentínu.
Samkvæmt fréttastofu NBC er hótelstarfsmaður, ónefndur „vinur“ Payne og einn aðili til viðbótar grunaðir um að eiga þátt í andláti hans, en þeir eru meðal annars sagðir hafa útvegað honum örvandi eiturlyf.
Eiturefnaskýrsla sýndi fram á að Payne hafði neytt áfengis, kókaíns og lyfseðilsskylds þunglyndislyfs innan við 72 klukkustundum fyrir andlátið.
Talið er að Payne hafi notað bleikt „kókaín“ kvöldið sem hann lést, en lyfið inniheldur sjaldnast kókaín og er raunar yfirleitt blanda af MDMA, ketamíni og metamfetamíni og rauðum matarlit.
Krufning leiddi í ljós innvortis og útvortis blæðingar og fjölda annarra áverka. Fjölskylda Payne flaug með lík hans aftur til Bretlands á miðvikudag, þremur vikum eftir andlát hans.