Andrés prins hafði fengið fyrirframgreiddan arf áður en móðir hans, Elísabet II, lést árið 2022. Þetta kemur fram í nýrri bók eftir Robert Hardman sem heitir Charles III: New King, New Court, The Inside Story.
Í bókinni er farið ítarlega yfir fjármál hertogans og hvar hann stendur fjárhagslega eftir að hafa misst stöðu sína innan konungsfjölskyldunnar.
Karl III kóngur vill til dæmis að hann flytji í minna húsnæði til þess að spara í öryggisgæslu. Við flutninginn myndi hann minnka við sig og fara úr 30 herbergja setri í fimm herbergja hús.
Í bókinni segir Hardman að kóngurinn ætli að hætta að borga með Andrési ef hann neitar að flytja. Andrés segist hins vegar hafa efni á að búa í Royal Lodge og lifi á peningum sem móðir hans arfleiddi honum og svo á peningum sem hann sjálfur hefur aflað sér.
"Ef það er rétt þá það. Ef ekki þá hefur kóngurinn ekki ótakmarkaða þolinmæði,“ segir í bókinni.
„Mögulega getur hertoginn borgað reikningana í eitt eða tvö ár en hann getur ekki viðhaldið greiðslugetu til langs tíma.“
Stutt er síðan tilkynnt var um að Andrés væri ekki lengur á framfæri konungs. „Hertoginn er ekki lengur fjárhagsleg byrði á konunginum,“ sagði heimildarmaður Hardmans.
„Hann segist hafa fundið aðrar leiðir til þess að fjármagna lífsstíl sinn í gegnum alþjóðlegt viðskiptatengslanet sitt. Nóg til þess að dekka allan kostnað. Ef rétt reynist þá er það af hinu góða. Það er hins vegar óvíst hvort þetta dugi til frambúðar.“